Ráðherrar Flokks fólksins virðast kjósa að ráða til sín fólk úr sínu nærumhverfi ef svo má að orði komast.
Þannig upplýsti Stefán Einar Stefánsson blaðamaður á Morgunblaðinu í hlaðvarpi Þjóðmála á dögunum að Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir hefði verið ráðin sem sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneyti Ásthildar Lóu Þórsdóttur. Guðbjörg Ingunn er eiginkona Ragnars Þórs Ingólfssonar, þingmanns Flokk fólksins, og náins samverkamanns Ásthildar Lóu.
Huginn og Muninn fjölluðu um þessar vendingar í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Í dag var svo tilkynnt að Guðbjörg Ingunn hafi verið ráðin aðstoðarmaður Ásthildar Lóu, einungis mánuði eftir að hafa verið ráðin sem sérfræðingur inn í ráðuneytið.
Hvort þetta sé viðbragð við afhjúpun Stefáns Einars, að gera hana pólitískt ráðinn aðstoðarmann fremur en sérfræðing, eða hvort Guðbjörg Ingunn hafi unnið sig upp metorðastigann í ráðuneytinu á methraða skal ósagt látið.
Hrafnarnir velta helst fyrir sér hvort hún fái að embættismannasið leyfi frá sérfræðingsstarfi sínu í ráðuneytinu sem hún getur svo gengið að við næstu stólaskipti í menntamálaráðuneytinu.
Guðbjörg Ingunn starfaði áður sem frístundatengill hjá þjónustumiðstöð borgarinnar í Breiðholti og vafalaust á sú reynsla eftir að koma að góðum notum í ráðuneytinu. Reyndar er Guðbjörg enn þá skráður starfsmaður hjá borginni og velta hrafnarnir því einnig fyrir sér hvort hún leiki sama leik og þingmennirnir Dagur B. Eggertsson og Pawel Bartozek og þiggi laun frá bæði ríki og borg í nokkra mánuði til þess að drýgja tekjurnar á þorranum.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.