Ný stjórn RÚV, sem Heimir Már Pétursson upplýsingaráðherra ríkisstjórnarinnar á meðal annars sæti í, fer vel af stað.
Þannig má sjá í nýjustu fundargerð að miklar umræður sköpuðust um þátttöku Ísraels í Eurovision. Meirihluti stjórnar lagði fram bókun um að ef ákveðið yrði að meina ísraelska ríkisútvarpinu þátttöku skuli RÚV styðja þá tillögu. Tæpt ár er í að næsta Eurovision fari fram en allur er varinn góður.
Einnig er farið yfir fjármál RÚV á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Afkoman var neikvæð um 219 milljónir króna og 40 milljónum lakari en áætlað var. Ef marka má fundargerðina var þetta ekki tilefni skoðanaskipta, jafnvel þó að stjórnin beri ábyrgð á rekstrinum.
Það er þó engin furða enda kemur einnig fram í fundargerð að til standi að bjóða stjórnarmönnum „upp á námskeið um lestur og greiningu ársreikninga við fyrsta hentugleika“.
Hrafnarnir hefðu haldið að það væri lágmarkskrafa að stjórnarmenn opinbers hlutafélags sem velti rúmlega 9 milljörðum í fyrra séu sæmilega læsir á ársreikninga.
Eina hæfniskrafan virðist aftur á móti vera að stjórnarmenn séu góðar manneskjur.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtis fyrst í Viðskiptablaðinu.