Týr ætlar ekki að tjá sig um þetta ömurlega mál sem er nú að leiða til afsagnar Ásthildar Lóu Þórsdóttur barnamálaráðherra. En full ástæða er til að fara yfir skrautlegan feril hennar í ráðherrastól á þessum tímamótum. Skrautlegur var hann þó svo að hann hafi aðeins staðið yfir í einhverja níutíu daga.

Ásthildur Lóa komst í stól barnamálaráðherra í krafti þess að hafa skrifað nokkuð reglulega greinar á Vísi á síðasta kjörtímabili með hástöfum. Stundum var Ragnar Þór Ingólfsson, formaður fjárlaganefndar, meðhöfundur.

Samstarf Ásthildar og Ragnars er náið og má í því samhengi nefna að eiginkona Ragnars var nýlega ráðin aðstoðarkona Ásthildar í ráðuneytinu.

Óvæntur atvinnumissir getur reynst fólki erfiður en þá er gott að eiga digra sjóði. Týr vonar heitt og innilega að ákvæði í stofnsamþykktum neyðarsjóðs fjölskyldu Ragnars heimili útgreiðslu vegna skyndilegra starfsloka, en það er svo sem annað mál.

Í krafti þessara greinaskrifa gjörsigraði svo Ásthildur Lóa núverandi formann Sjálfstæðisflokksins, Guðrúnu Hafsteinsdóttur áhugakonu um kjúklingarækt, í einu af hans helstu vígum í Suðurkjördæmi. Það gengur svo.

Sprengjuregn ráðherra

En á þessum þremur mánuðum sem Ásthildur Lóa hefur gegnt embætti barnamálaráðherra hefur hún komið miklu í verk. Henni tókst að sprengja upp kennaradeiluna sem leiddi til gerðar kjarasamninga sem sveitarfélögin ráða engan veginn við og mun á endanum rjúfa sáttina sem náðist á hinum almenna vinnumarkaði með gerð stöðugleikasamninganna.

Þó svo að hún hafi tapað dómsmáli gegn Arion banka vegna uppboðs á húsi sem hún býr enn í tókst henni eigi að síður að afsanna þá kenningu að maður geti ekki átt kökuna og borðað hana líka.

Þau mál öll urðu svo til að Ásthildur gerði heiðarlega tilraun til þess að grafa undan trausti almennings á réttarríkinu.

Þó svo að Ásthildur sé nú að hverfa úr ráðherrastól er hún gangandi sönnun þess að Valkyrjustjórnin sé fyrst og fremst verkstjórn. Það gildir einu um hvort verkin séu góð eða slæm – þetta er fyrst og fremst verkstjórn.