Hús atvinnulífsins virðist hafa vaknað upp af værum blundi og áttað sig á að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fara brátt að renna sitt skeið. Þannig taka Sigríður Margrét Oddsdóttir og félagar í Samtökum atvinnulífsins Bylgjulestina sér til fyrirmyndar og lögðu í gær af stað í hringferð um landið til að taka út stemninguna í íslenska hópnum.

Fundað verður í hverjum landshluta og leitast við að svara spurningunni um hvernig íslenska þjóðin losni úr vítahring vaxta og verðbólgu.

Ætla má að SA hafi stolið hugmyndinni af nágrönnum sínum í SFS en Heiðrún Lind Marteinsdóttir hefur þegar lagt af stað í hringferð um landið þar sem hún ásamt fríðu föruneyti fræðir fundargesti um hvað sjávarútvegurinn hefur gert fyrir land og þjóð.

Hrafnarnir bíða spenntir eftir því að fleiri hagsmunasamtök sláist í hópinn og geta sem dæmi ímyndað sér að íbúar Ísafjarðar og Egilsstaða tækju því fagnandi að fá Heiðrúnu Jónsdóttur og vini hennar í SFF í heimsókn með fundaröð um arðsemi íslensku bankanna og flókið regluverk fjármálamarkaða.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.