Týr hefur sérstaklega gaman af ávörpum Ívars A. Arndal, forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem fylgja ársskýrslum stofnunarinnar.

Í ár hefur forstjórinn allt á hornum sér. Enda er reksturinn í uppnámi.

***

Sala áfengis í verslunum ÁTVR dróst saman um 2% í lítrum talið milli ára. Eins og fram kemur í máli Ívars lækkaði hlutfall ÁTVR af greiddum áfengisgjöldum úr 73% árið 2019 niður í 68,2% í fyrra.

Ívar segir:

„Rökrétt er að álykta að þetta sé að mestu vegna ólöglegrar netsölu áfengis. Afleiðingar þessa eru að arðgreiðsla ÁTVR í ríkissjóð lækkar um 400 milljónir króna. Ef ekkert verður að gert varðandi netsöluna er líklegt að ÁTVR verði að skerða þjónustu verulega á næstu árum svo ekki komi til hallareksturs.“

Týr tekur eftir að forstjórinn telur að 110 milljóna króna hækkun á stjórnunarkostnaði milli ára dragi ekki úr arðgreiðslugetu stofnunarinnar. Hefur sá kostnaður aukist um 205 milljónir króna á síðustu þremur árum.

Í ljósi þessa getur Týr ekki varist þeirri hugsun að líkt og margar aðrar óþarfar stofnanir hins opinbera sé tilvist þeirra eingöngu til þess að þjóna stjórnendum þeirra.

***

Það ætti að vera öllum ljóst að ímynduð einokun ÁTVR á sölu áfengis hér á landi fæst ekki staðist lengur. Neytendur kjósa með fótunum og versla í vaxandi mæli við netverslanir sem eru með lager erlendis.

Ákall forstjórans í ársskýrslu um að lögreglan skakki leikinn er marklaust. Ofangreindri þróun verður ekki viðsnúið og sífellt minnkandi hagnaður af reglulegri starfsemi ÁTVR og samdráttur á tóbakssölu mun þýða á endanum að þessum rekstri verður sjálfhætt. ÁTVR mun enda á ruslahaug sögunnar með fyrirbrigðum eins og Viðtækjaverslun ríkisins og Bifreiðaeinkasölu ríkisins.

Neiti stjórnmálamenn að horfast í augu við þessa staðreynd er einsýnt að ÁTVR verði áfram eins og nátttröll í íslenskri verslun neytendum til sárs ama og leiðinda og skattgreiðendum til fjárhagslegs skaða.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. maí 2024.