Ljósmyndir eru ómetanleg heimild þegar kemur að stórviðburðum í sögu þjóðarinnar. Nægir þar að hugsa til lýðveldishátíðar á Þingvöllum eða snjóflóðsins á Flateyri. Ef við ættum nú myndir frá Örlygsstaðabardaga, Njálsbrennu eða Skaftáreldum.

Mér er sérstaklega minnisstæð ljósmynd sem sýnir hrikaleg eldsumbrotin í hraunjaðrinum í eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973. Á myndinni stendur maður við húsið Tún, styður höndum á mjöðm og horfir framan í eldinn – hálffermdur pallbíll að baki hans. Það hrópar á mann hversu lítils megnug við erum gagnvart ógnarkröftum og hrikalegu sjónarspili náttúrunnar, en um leið ber myndin vott um æðruleysi og stillingu á ögurstundu. Minnir á ljósmyndina frægu af manni sem stóð „bara þar sem honum fannst hann ætti að standa“ og stöðvaði með því skriðdrekalest í uppreisninni í Ungverjalandi 1956.

Ljósmyndir frá eldgosinu í Eyjum geyma dýrmætar minningar og hjálpa okkur að setja okkur í spor eldri kynslóða. En þær gegna einnig hlutverki þegar kemur að ímynd og sögulegri geymd, hvort sem er á bókum, í kvikmyndum, markaðsefni eða á sýningunni í Eldheimum, sem er á heimsmælikvarða.

Það var heimsfrétt þegar íbúum Grindavíkur var hleypt í bæinn hundruðum saman í febrúar í fyrra til að sækja eigur sínar í skugga eldsumbrota, sumir að kveðja heimili sín fyrir fullt og allt. Eflaust hefur yfirvöldum gengið gott til þegar lokað var á fréttaljósmyndir frá þessum atburðum, en sú ákvörðun byggist þó á grundvallarmisskilningi. Fréttaljósmyndarar ráða vel við erfiðar aðstæður, hvort sem það er mannlegur harmleikur eða náttúruhamfarir, og sýna almennt tillitsemi og ábyrgð við slíkar kringumstæður.

Eyðurnar segja sína sögu. Á ljósmyndasýningu ársins voru engar fréttaljósmyndir frá þessum stórviðburði.

Það er ótvírætt frelsismál að fréttaljósmyndarar fái óhindrað að gegna sínu starfi. En hlutverk þeirra sem skrásetjarar samtímans er ekki síður mikilvægt –það eru augnablik sem annars gleymast.

Höfundur er ráðgjafi og fjölmiðlamaður.