Dagur B. Eggertsson þingmaður og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar fékk í desember 4,6 milljónir í laun frá skattgreiðendum.

Hrafnarnir telja þetta hin þokkalegustu laun fyrir mann sem að sögn Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, „er auka­leik­ari, ekki aðal, í þessu verk­efni.“

Friðjón Friðjónsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vakti máls á því á borgarstjórnarfundi í gær að formaður borgarráðs, þingmaðurinn Dagur B. Eggertsson hafi ekki enn beðist lausnar þrátt fyrir að komið væri að lokum þriðja borgarstjórnarfundar frá þingkosningum.

Í því samhengi sagði Friðjón frá ofurlaunum Dags B. og benti á að í desember fengi Dagur þreföld laun en tvöföld í janúar með álagi fyrir formennsku í borgarráð.

Dagur kom þá upp og sagðist ætla að hætta sem borgarfulltrúi á borgarstjórnarfundi 21. janúar svo eitthvað lækka launin í janúar við það.

Alexandra Briem kom í kjölfarið upp í ræðustólinn og stráði óvart salti í sár Dags þegar hún ætlaði að verja hann. Hún benti á að hann væri nú hvorki ráðherra né þingflokksformaður.

Aukaleikarar þurfa að bregða sér í mörg hlutverk.
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

En þó er aldrei að vita því ef til vill verður ofurorlof dregið upp úr hattinum, líkt og þegar Dagur hætti sem borgarstjóri.

Dagur B. Eggertsson er einn snjallasti aukaleikari landsins. Hann beið með að segja af sér borgarfulltrúajobbinu þangað til að bent var á það. Ætlaði hann nokkuð að hætta?

Það er er lítið að gera hjá aukaleikaranum sem í gær fékk enn eina höfnunina. Þingflokksformennskan hjá Samfylkingunni fór til alls óreynds manns af Seltjarnarnesi sem lengstan hluta starfsævinnar hefur unnið í félagsmiðstöð.

Hrafnarnir útloka þó ekki að það sé ágætis reynsla til að stýra þingflokki Samfylkingarinnar.

Til þess að útskýra málið þó nánar fyrir lesendum Viðskiptablaðsins þá eru laun formanns borgarráðs 1,55 milljónir á mánuði en þingfarakaupið er 1,525 milljónir á mánuði.

Þingfarakaupið er fyrirframgreitt og fá þingmenn tvenn laun í desember, þar sem kosningar fóru fram síðasta dag nóvember.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.