Mikill titringur er nú í íslensku atvinnulífi. Myllan-Ora reynir nú enn á ný að kaupa majónesframleiðandann Gunnars.

Verði af kaupunum standa menn frammi fyrir þeim veruleika að ein og sama fjölskyldan hefur tryggt sér yfirráð yfir allri aðfangakeðjunni sem til þarf til gerðar karrísíldar og sinnsepssíldar en sem kunnugt er þá eru sömu eigendur að Myllunni-Ora og Ísfélaginu í Vestmannaeyjum sem er eitt umsvifamesta uppsjávarútgerð landsins.

Hrafnarnir bíða því spenntir hvernig Páll Gunnar Pálsson og hans fólk bregðist við þessu. Samkeppniseftirlitið hefur látið sig majónesmarkaðinn mikið varða gegnum tíðina og er skemmst að minnast þegar stofnunin birti hátt í þúsund blaðsíðna greiningu á majónesmarkaðnum á sama tíma og það kom í veg fyrir kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars. Hefur sú skýrsla gengið undir nafninu Biblía feita fólksins og væri það svo sannarlega í anda jólahátíðarinnar að við bættist nýtt testament úr smiðju Páls Gunnars við það mikla bókmenntaverk .

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. desember 2024.