Stjórnarkjörið hjá Festi í síðustu viku vekur spurningar um eitt og annað. Aðdragandi fundarins var að stjórn félagsins gerðist tvísaga um ástæður starfsloka Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra í júníbyrjun.
Fróðlegt er að þrír nýir stjórnarmenn hjá Festi, sem vænta má að hafi verið kjörnir með stuðningi óánægðra hluthafa, hafi kosið að halda áfram með sama formann, Guðjón Reynisson. Það þarf ekki í sjálfu sér að vera slæmt að halda einhverri festu hjá svo stóru félagi. Hrafnarnir hafa heyrt því fleygt að vilji hafi verið til þess í hluthafahópnum að Hjörleifur Pálsson, sem naut stuðnings Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, tæki við stjórnarformennskunni.
Þrátt fyrir nokkra umfjöllun um málið hefur enn ekki verið útskýrt fyllilega hver meintur skoðanamunur stjórnarinnar og Eggerts Þórs var sem leiddi til starfslokanna. Guðjón stjórnarformaður boðaði þó að fjórðu stoðinni yrði bætt við reksturinn á komandi misserum. Fróðlegt verður því að fylgjast með forstjóraleitinni og hvort öldurnar hafi lægt fyrir aðalfund næsta árs.
Huginn & Muninn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. júlí 2022.
Leiðrétting: Ranghermt var í prentuðu útgáfu blaðsins að Margrét Guðmundsdóttir væri áfram varaformaður stjórnar hjá Festi. Hið rétta er að Sigurlína Ingvarsdóttir er varaformaður nýkjörinnar stjórnar félagsins.