Panamaskjalagosinn Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, segir farir sínar ekki sléttar. Hann þurfti að fara í ómskoðun á hjarta nýverið á einkarekinni stofu. Vilhjálmur kvartar sáran undan því á samfélagsmiðlum að hafa greitt 35 þúsund krónur úr eigin vasa fyrir skoðunina.

Út frá þessari reynslu sinni dregur Vilhjálmur þá ályktun að best fari á því að ríkið taki alfarið að sér slíkar skoðanir og væntanlega aðrar þær sem eru gerðar á einkareknum læknastofum. Vilhjálmur getur þess reyndar ekki að ómskoðanir á hjarta eru vissulegar gerðar á Landspítalanum og kosta sjúklinga um 20 þúsund krónur. Biðlistinn eftir að komast í slíka skoðun er hins vegar um hálft ár.

***

Það munar sem sagt fimmtán þúsund krónum á hlut sjúklings í ómskoðun á Landspítalanum og á einkarekinni stofu. Munurinn á verði þjónustunnar ræðst væntanlega af því að biðlistarnir þekkjast ekki hjá einkareknu stofunum og laun starfsmanna og vinnuaðstæður starfsmanna á einkareknu stofunum eru skaplegri en á Landspítalanum.

Fáum nema Vilhjálmi dettur í hug að það myndi bæta þjónustu við sjúklinga að færa allar slíkar skoðanir á hendur ríkisins innan veggja Landspítalans. En eigi að síður telur Týr fulla ástæðu til þess að gefa skrifum Vilhjálms gaum. Hann er jú mikill áhrifamaður innan Samfylkingarinnar.

***

Þetta varpar vafalaust ljósi á hvers vegna eitt af helstu stefnumálum Samfylkingarinnar í síðustu alþingiskosningum var að gera Ölmu Möller að heilbrigðisráðherra. Það tókst.

Alma er sem kunnugt er svarinn andstæðingur einkareksturs í heilbrigðiskerfinu þó svo að það hafi stuðlað að styttri biðlistum og betri þjónustu. Í viðtali við Heimildina í fyrra sagðist hún óttast að læknar og hjúkrunarfræðingar kjósi frekar að starfa í einkageiranum í stað þess að vinna fyrir ríkið. Í embætti hefur Alma reynt að bregða fæti fyrir einkaframtakið og sýnt til þess einbeittan brotavilja.

Enda er Samkeppniseftirlitið með embættisverk Ölmu sem landlæknis til skoðunar og snýr það meðal annars að því hvernig staðið var að samningum sem kostuðu skattborgara þessa lands milljarða. Þá er fjöldi annarra mála til skoðunar sem öll bera þess merki að landlæknir reyndi að grafa undan einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni.

Það er Tý til efs að þeir sem studdu stjórnarflokkana hafi ætlað að kjósa þessa ríkisharðlínustefnu yfir sig í heilbrigðismálum.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. janúar 2025.