Orðatiltækið sem er fyrirsögn þessa er pistils á við þá stöðu þegar stærðir sem þurfa að vaxa í sama takti gera það ekki. Slíkt er óþægilegt. Augljóst er að fötin vaxa ekki með okkur, hvort sem við erum að lengjast eða gildna.

Margt annað þarf að vaxa með sama hraða þó ekki sé það alltaf augljóst. Dæmi um þetta eru hagvöxtur, útlán og arðsemi banka sem eru nátengdar stærðir og þurfa að fylgjast að til lengri tíma. Margir átta sig á samhengi hagvaxtar og útlána. Hagvöxtur kallar oftast á fjárfestingar og fólksfjölgun. Fjárfestingar í nýjum framleiðslutækjum kalla á fjármögnun sem að jafnaði er að stærstum hluta mætt með lánsfé. Fólksfjölgun leiðir til íbúðabygginga og vaxtar ýmiskonar þjónustu sem fjármagnaðar eru að stærstum hluta með útlánum.

Vaxandi hagkerfi, eins og hið íslenska, þarf á vaxandi lánsfé að halda. Enda er það svo. Frá 2014 til ársloka 2022 svo dæmi svo dæmi sé tekið var hagvöxtur að nafnvirði tæp 8% á ári og útlán innlánsstofnana jukust um um rúm 7%. Ástæða þess að þetta tímabil var valið er að árið 2015 voru áhrif niðurfærslna útlána sem leiddu af fjármálahruninu 2008 að mestu um garð gengin.

Náið samspil er á milli útlána og eigin fjár banka, en það er líklega minna þekkt. Ítarlegar reglur gilda um eigið fé banka sem eru að stofni til alþjóðlegar og hér á landi eru þær hluti af löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Að stærstum hluta er eigið fé eða eiginfjárbindingin byggð á áhættumati á eignum bankans en aðrir þættir koma reyndar einnig til. Eiginfjárkrafan sem eftirlitsaðilinn gerir til bankans vegna eigna er reiknuð út frá fjárhæð einstakra flokka eigna, áhættuvogum einstakra eignaflokka og svo auðvitað eiginfjárkröfunni í prósentum. Til að skýra þetta nánar þá er svo dæmi sé tekið áhættuvog íbúðalána undir 80% veðsetningarhlutfalli 35%, áhættuvog lána til fyrirtækja 100% en áhættuvog lána til aðila með ábyrgð ríkissjóðs 0%. Sé eiginfjárkrafan til dæmis 20% þarf að binda um 7% vegna nýrra íbúðalána, 20% af hverju nýju láni til fyrirtækja en ekkert vegna lána til aðila með ábyrgð ríkissjóðs. Útlán eru stærsti einstaki liður eigna banka og ráða því að jafnaði mestu um eiginfjárbindingu vegna starfsemi banka. Ný útlán eða réttara sagt vöxtur útlána kallar því á eigin fé, það er til að banki geti veitt nýtt lán þarf að hann að hafa á móti eigið fé til að mæta eiginfjárbindingunni sem útlánið veldur.

Eigið fé banka eins og annarra fyrirtækja myndast annað hvort með framlögum hluthafa eða uppsöfnuðum hagnaði af starfsemi þess. Hagnaðinn má kalla innri vöxt í þeim skilningi að það er fyrirtækið sjálft sem myndar hann og best er að eigin fé vaxi vegna hagnaðar fyrirtækisins. Það er það sem hluthafar vænta með hlutafjárframlagi sínu til fyrirtækisins. Nýtt hlutafé er almennt ekki reitt af hendi nema vonir standi til að það skili ásættanlegri arðsemi þegar fram líða stundir.

Arðsemi íslenskra banka á tímabilinu 2015 til 2022 var að meðaltali tæp 9% en um 7,6% þegar litið er til hagnaðar af reglulegri starfsemi. Munur á þessu tvennu eru óreglulegri þættir. Sérstaklega var mikill hagnaður árið 2015 sem rekja má til uppfærslu eigna sem niðurfærðar höfðu verið í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Eins og þessar tölur bera með sér er arðsemin á tímabilinu í heild nokkurn veginn í takt við aukningu útlána þannig að bankar hafa myndað eigið fé mæta aukningu útlána sem aftur hefur verið nokkurn veginn í takt við hagvöxt. Þetta er vel. Í sumum nágrannalöndum hefur þessu ekki svo farið sem leitt hefur af sér áhyggjur um að slök arðsemi banka setji hagvexti skorður.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja.