Hrafnarnir hafa lengi staðið í þeirri meiningu að enginn hati verðtrygginguna meira en Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforkólfur á Skaganum.
Þeir þurfa nú að endurskoða þessa afstöðu nú þegar Benedikt Gíslason bankastjóri Arion hefur stigið fram á sjónarsviðið sem einn helsti andskoti verðtryggingarinnar. Má vart sjá hvor þeirra hatar verðtrygginguna meira. Benedikt steig á stokk á ráðstefnu sem Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu stóðu fyrir í síðustu viku og sagði meðal annars að verðtrygginguna væri hægt að afnema með einu pennastriki í annars ágætu og fróðlegu erindi.
Þessi fullyrðing féll í grýttan jarðveg hjá lífeyrissjóðsmönnunum Gunnari Baldvinssyni og Ólafi Sigurðssyni sem bentu á að pennastrik til eða frá breyttu engu um verðbólgusögu íslenska efnahagskerfisins og eftirspurn eftir verðtryggðum eignum. Hrafnarnir leggja til að Benedikt og Vilhjálmur skori á þá Gunnar og Ólaf í keppni til að skera úr um málið í eitt skipti fyrir öll – tvímenningur í borðtennis hlýtur að koma til greina í þeim efnum.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.