Við sem gegnum forystu í Kópavogsbæ höfum lagt ríka áherslu á að ávinningur af góðum rekstri bæjarins nýtist íbúum, bæði með skattalækkunum og bættri þjónustu. Þessar áherslur endurspeglast meðal annars í hagræðingaraðgerðum fyrir 850 milljóna króna og verulegri lækkun fasteignaskatta sem nemur um einum milljarði króna á kjörtímabilinu.

Ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir árið 2024 endurspeglar sterka stöðu bæjarfélagsins og áherslur okkar. Rekstur bæjarins hefur tekið miklum framförum og rekstrarafgangur samstæðunnar nemur 4,5 milljörðum króna, sem er besta afkoma sveitarfélagsins í sautján ár. Þennan árangur má rekja til aðhaldssamrar og ábyrgrar fjármálastjórnar, auk tekna vegna úthlutunar lóða í nýju hverfi í Vatnsendahvarfs. Veltufé frá rekstri var jákvætt um 4,8 milljarða króna, sem er það svigrúm sem reksturinn skilar til skuldalækkunar og fjárfestinga. Þá lækkuðu heildarskuldir bæjarins um 5% að raunvirði og skuldaviðmið fer úr 92% í 77% og er því langt undir lögbundnu hámarki.

Forgangsröðun í þágu skóla og kennara

Reynslan hefur sýnt að óábyrg fjármálastjórn og ósjálfbær skuldasöfnun sveitarfélaga leiðir gjarnan til skattahækkana eða skerðingar á þjónustu. Í ljósi þessa hefur verið tekin meðvituð ákvörðun hjá okkur  í forystu Kópavogsbæjar um að halda aftur af útgjaldaaukningu og beina fjármagni fyrst og fremst í grunnþjónustu, þar á meðal menntamál.

Í því samhengi má nefna nýja kjarasamningar kennara en þeir eru mikilvægur áfangi í því að styrkja kennarastéttina og vinna gegn brotthvarfi úr greininni. Þrátt fyrir að þeir feli í sér umtalsverðan viðbótarkostnað voru öll sveitarfélög reiðbúin að fara þessa leið. Fyrir Kópavogsbæ er áætlað að áhrif samninganna nemi um 1.380 milljónum króna á ári – eða um 670 milljónum króna á ársgrundvelli umfram áætlaðan kostnað í fjárhagsáætlun.

Við þessu töldum mikilvægt að bregðast hratt við og var í kjölfarið var farið í heildstæða greiningu á rekstri bæjarins með það að markmiði að finna leiðir til hagræðingar án þess að skerða þjónustu við íbúa.

Meðal þeirra aðgerða sem bæjarstjórn Kópavogs hefur nú samþykkt eru :

  • Lækkun starfshlutfalls og launa kjörinna fulltrúa um 10%
  • Launafrysting lykilstjórnenda til júlí 2026
  • Launalækkun bæjarstjóra, bæði sem kjörinn fulltrúi með 10% launalækkun og sem stjórnandi með launafrystingu í fimmtán mánuði
  • Skipulagsbreytingar sem stuðla að verulegri hagræðingu
  • Dregið verður úr aðkeyptri þjónustu og rekstrarkostnaði stofnana

Með þessum aðgerðum hefur Kópavogsbær ákveðið að forgangsraða fjármunum með ábyrgum hætti í þágu kennara, barna og skólastarfs. Aðgerðirnar eru að mínu mati bæði skynsamar og raunhæfar og til þess fallnar að draga ekki úr þjónustu við bæjarbúa.

Hagræðing samhliða fimmfaldri gestaaukningu

Í pólitískri umræðu er tilhneiging til að leggja að jöfnu hagræðingu og niðurskurð. Hér er þó um tvo ólíka hluti að ræða þar sem hagræðing er fólgin í því að nýta betur skattfé almennings fyrir sömu eða jafnvel betri þjónustu á meðan í niðurskurði felst skerðing á þjónustu. Hjá Kópavogsbæ hefur verið forgangsmál að efla þjónustu við bæjarbúa en um leið að láta skynsemi ráða för við nýtingu hinna takmörkuðu fjármuna sem úr er að spila. Gott dæmi um það eru breyttar áherslur í rekstri menningarhúsa bæjarins. Við boðuðum breytingar með það að markmiði að hagræða í rekstri en um leið efla menningarstarfið, til dæmis með aukinni sjálfsafgreiðslu og breyttri nálgun með Náttúrufræðistofu. Fyrstu mánuði eftir að við opnuðum nýja menningarmiðju með þessum breyttu áherslum gestafjöldi í menningarhúsum Kópavogsbæjar fimmfaldast. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um hagræðingaraðgerðir sem hægt er að ráðast í en um leið efla þjónustu við bæjarbúa.

Kjörnir fulltrúar bera ríka ábyrgð á því að standa vörð um þá þjónustu sem íbúar treysta á. Stefna okkar sem gegnum forystu hjá Kópavogsbæ byggir á því að standa vörð um góðan rekstur og skila ábatanum beint til bæjarbúa í formi lægri skatta og bættrar þjónustu. Þessi nálgun hefur reynst vel og verður áfram leiðarljós okkar út kjörtímabilið.

Höfundur er bæjarstjóri Kópavogs.