Heilbrigðiseftirlit starfar samkvæmt lögum og er eftirlitið á höndum ellefu stofnana á tveimur stjórnsýslustigum undir yfirstjórn tveggja ráðherra. Hvorki meira né minna. Eftirlitið er síðan framkvæmt af eftirlitsaðilum sem starfa hver á sínu heilbrigðiseftirlitssvæði og þau eru níu talsins.
Starfshópur á vegum umhverfis-, orku og loftslagsráðherra skilaði skýrslu um framkvæmd heilbrigðiseftirlits í október 2023. Niðurstaðan var í stuttu máli að þörf væri á gagngerum breytingum á eftirlitinu. Ósamræmi í framkvæmd væri mikið, stjórnsýsla flókin og yfirsýn skorti. Fyrirkomulagið hefði því neikvæð áhrif á atvinnulíf og þar með samkeppnishæfni Íslands. Hægt væri að einfalda kerfið verulega og tryggja þannig betri þjónustu og minni kostnað.
Í skýrslunni var bent á veikleika heilbrigðiseftirlits sem hefðu verið raktir í fjölmörgum skýrslum og verið til umræðu árum, jafnvel áratugum saman. Þrátt fyrir það hefði ekki verið brugðist við og ráðist í heildstæðar breytingar á eftirlitskerfinu.
Óþarflega flókið
Samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins frá janúar 2024 hefur regluverk og eftirlit með starfsemi fyrirtækja innan þeirra raða aukist mikið á undanförnum árum. Regluverk og rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu sé að mörgu leyti alltof flókið. Eftirlit sé mikið, og kröfur til aðila með afmarkaðan og einfaldan rekstur óhóflegar.
Þá birti Viðskiptaráð úttekt á opinberu eftirliti á haustdögum 2024 og beindi m.a. sjónum að heilbrigðiseftirliti. Niðurstöður Viðskiptaráðs voru að umsvif eftirlitsstofnana væru mikil í samanburði við nágrannaríki. Athugasemdir ráðsins lúta að fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits sem sé óþarflega flókið og ósamræmi sé í framkvæmd eftirlitsins. Tillögur ráðsins lúta m.a. að því að framkvæmdinni verði útvistað til faggiltra eftirlitsstofa; til einkaaðila.
Íslenskir atvinnurekendur hafa lengi kvartað undan framkvæmd heilbrigðiseftirlits hér á landi. Hef ég ekki orðið varhluta af þeim umkvörtunum í samskiptum mínum við atvinnurekendur. Samskipti við eftirlitsaðila séu svifasein og tímafrek og skortur sé á samræmingu og fagmennsku í heilbrigðiseftirliti. Gagnrýnin hefur mér ekki síst þótt hávær á landsbyggðinni þar sem kvartanir snúa m.a. að ólíkri framkvæmd milli nálægra eftirlitssvæða. Aðrir hafa bent á að eftirlitsaðilar gangi oft hart fram gagnvart atvinnurekendum þegar matskennt svigrúm er til túlkunar.
Of íþyngjandi reglur
Það er mikilvægt að við höfum skýrt lagaumhverfi fyrir atvinnulífið að starfa eftir. Með hliðsjón af framangreindu þykir mér ljóst að reglur um heilbrigðiseftirlit og framkvæmd þess séu of íþyngjandi. Það hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir atvinnulífið og veikir samkeppnisstöðu þess. Þá er mikilvægt að jafnræðis sé gætt við eftirlit; að fyrirtæki um land allt sitji við sama borð.
Undirrituð telur að núverandi fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits hér á landi sem sé ekki gott. Ósamræmi sé mikið og stjórnsýsla alltof flókin. Góð raun hafi hins vegar gefist af útvistun eftirlits til faggiltra skoðunarstofa, m.a. eftirlits með ökutækjum, skipum, rafmagnsvörum, leikvöllum og vinnuvélum.
Því hef ég lagt fram þá tillögu á Alþingi, í meðflutningi fleiri sjálfstæðismanna, að heilbrigðiseftirliti verði útvistað. Við teljum að það fari vel á að framkvæmd heilbrigðiseftirlits verði í höndum einkaaðila á einu eftirlitssvæði, samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum þar um. Vonandi nær þingmálið eyrum fleiri þingmanna, ekki síst stjórnarliða sem starfa samkvæmt yfirlýstum sáttmála um „auk[na] verðmætasköpun í atvinnulífi“ og um „einfalda[ri] stjórnsýslu“.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins