Það er stundum rætt um Chicago-skólann í hagfræði sem hugtak sem nær yfir nýklassískar kenningar í hagfræði og vafalaust er lesendum vel kunnugt um austurríska skólann og helstu boðbera hans eins og F.A Hayek og Ludwig Mises.
Hrafnarnir sjá að nýr skóli sé að líta dagsins ljós í hugmynda- og kenningarheimi hagfræðinnar: Bifrastarskólinn. Í kjölfar stjórnarslitanna leitaði Vísir til Guðrúnar Johnsen deildarforseta Háskólans á Bifröst og spurði um efnahagslegar afleiðingar þeirra. Ekki stóð á svörum. Guðrún segir að stjórnarslitin geri það að verkum að atvinnulífið haldi að sér höndum og þar af leiðandi sé erfitt að sjá fyrir sér frekari verðhjöðnun.
Enn sem komið er virðist Bifrastarskólinn í hagfræði ekki hafa mikil áhrif og virðast stjórnarslitin hafa hverfandi áhrif á þróunina á verðbréfamörkuðum og hvernig þeir endurspegla væntingar um verðbólgu- og vaxtaþróun.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. október.