Á síðastliðnum árum hafa skattyfirvöld í auknum mæli tekið til skoðunar bifreiðahlunnindi eigenda fyrirtækja. Til marks um það má t.a.m. sjá á vef yfirskattanefndar að mikill fjöldi af málum sem berast á borð nefndarinnar varða endurákvarðanir skattyfirvalda vegna slíkra hlunninda.

Árlega gefur ríkisskattstjóri út svokallað skattmat, sem felur í sér reglur um það hvernig skuli meta fjölmörg hlunnindi til tekna og síðan skattlögð. Í umræddum skattmatsreglum má finna ákvæði þar sem fjallað er um bifreiðahlunnindi og hvernig þau eiga að vera reiknuð. Í reglunum kemur fram að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnar­menn fyrirtækja teljist ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólks­bif­reið­um sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota. Í kjölfarið ber þeim að greiða tekjuskatt vegna þessa, stundum sex ár aftur í tímann hafi þess ekki verið gætt að telja hlunnindin fram í öndverðu.

Vegið að rekstri lítilla fyrirtækja

Í úrskurðarframkvæmd hjá Skattinum, sem hefur verið staðfest hjá yfirskattanefnd, þá þarf embættið ekki að leggja sérstakt mat á hvort framangreindir aðilar hafa bifreiðar fyrirtækis til einkanota, líkt og skattmatið mælir fyrir um. Dugar það því eitt og sér að þeir séu með lyklavöldin í lok dags. Ekki nóg með það heldur getur sú aðstaða komið upp, eigi fyrirtæki fleiri en eina bifreið, að einstaklingur teljist hafa umráð yfir tveimur bifreiðum samtímis ef ákvörðunarvald um notkun þeirra er hans.

Þessi túlkun RSK hefur leitt til þess að fjöldi aðila, sem eiga og reka fyrirtæki, sem eru háð því að vera með bifreiðar í sínum rekstri, þarf að sæta aukinni skattlagningu á hverju ári, fyrir það eitt að fyrirtækið hafi þörf á bifreið í þágu rekstrar. Skiptir þá engu þó bifreiðin sé aldrei notuð í öðrum tilgangi en í þágu félagsins. Má sem dæmi nefna ferðaþjónustuaðila sem fara með ferðamenn upp á hálendi á breyttum bifreiðum og þá sem reka gistiþjónustu úti á landi á stað sem er ekki þjónustaður af Vegagerðinni og eiga því sérhæft ökutæki vegna þessa, bændur sem eru með pallbifreiðar í fjósastörfum sínum, iðnaðarmenn sem keyra um á bifreiðum milli verkstaða með efni og tæki og svo mætti lengi telja. Hefur það leitt til þess að aðilar sem reka fyrirtæki, sér í lagi lítil fyrirtæki, sem þurfa að reiða sig á bifreið í þágu rekstrar, standa á krossgötum með sinn rekstur.

Sönnunarstaða hluthafa bágborin

Í þokkabót má bæta því við að í þessum málum virðist Skatturinn gera ráð fyrir öfugri sönnunarbyrði, þ.e. í þeim tilfellum sem fyrirtæki á bifreið eða bifreiðar sé það eiganda þess að sýna fram á að hún hafi aldrei verið nýtt í persónulegum erindagjörðum. Slíkt getur verið erfiðleikum bundið enda nánast ómögulegt fyrir einhvern að sanna að hann hafi ekki gert eitthvað.

Við úrlausn þessara mála þá hafa skattyfirvöld ekki talið þörf á að líta til skýringa, sjónarmiða eða gagna skattaðila þess efnis að bifreið hafi eingöngu verið nýtt í þágu rekstrar. Þess í stað telur embættið að ákvörðunarvald eigenda leiði skjálfkrafa til þess í öllum tilvikum að um skattskyld hlunnindi sé að ræða. Þá hafa skattyfirvöld ekki lagt mat á eðli rekstarins og rekstrarleg not bifreiðar, heldur leggja þau öll mál að jöfnu við mál þegar augljóslega er verið að kaupa bíl í einkatilgangi. Óljóst er hvert markmið skattyfirvalda er með að setja kvöð um auka skattlagningu á minni rekstraraðila, þegar fyrir liggja ítarleg svör og skýringar um að bifreiðar hafi einungis verið notaðar í atvinnurekstri, ekki í einkaþágu, sem embættið ákveður að líta algjörlega fram hjá við úrlausn sinna mála.

Er það mat undirritaðrar að skattyfirvöld þurfa að beita faglegu mati í bifreiðahlunnindamálum sínum í stað þess að horfa einungis til þess að atvinnurekstur sé með bifreið og ætla sér a skattleggja umráðin ein og sér, án þess að meta hvort raunveruleg hlunnindi hafa átt sér stað í formi einkanota, sbr. raunveruleikareglu skattaréttar. Ef skattaðili hefur engin hlunnindi af umráðunum, þ.e. engin persónuleg not af bifreiðinni, þá er skattaðili að lenda í óréttmætri skattlagningu.

Það má því velta því upp hvort að skattmat ríkisskattstjóra sé komið út fyrir mörk 40. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir að engan skatt megi leggja á, né breyta eða taka af nema með lögum, þar sem löggjafinn hefur aldrei tekið afstöðu til framangreindrar framkvæmdar.

Höfundur er lögfræðingur hjá Deloitte Legal.