Það er engum blöðum um það fletta að Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins og formaður fjárlaganefndar, er ekki óhagnaðardrifinn einstaklingur – þvert á móti. Það sést einna best á ríflegum starfslokasamningi sem hann gerði á sínum tíma við stjórn VR þegar hann tók við sem formaður verkalýðsfélagsins.

Ragnar fær tæplega tíu milljónir fyrir að láta af störfum hjá VR en eins og flestir vita hefur hann verið manna duglegastur að gagnrýna sjálftöku og starfslokagreiðslur ýmissa áhrifamanna í embættismannakerfinu og viðskiptalífinu.

Hrafnarnir velta fyrir sér hvort að Guðrún Johnsen, sem starfaði á sínum tíma sem efnahagsráðgjafi VR, hafi verið Ragnari innan handar þegar starfslokasamningurinn var gerður en hún hefur töluverða reynslu af slíkri samningagerð samanber eftirminnilegan samning sem hún gerði við Höskuld H. Ólafsson fyrrverandi bankastjóra þegar hún var í stjórn Arion. Þann samning gagnrýndi Ragnar einmitt harðlega. En þrátt fyrir að margir hneykslist af sjálftöku Ragnars er þingmaðurinn ekki að baki dottinn og hefur réttlætt samninginn með að vísa í að hann sé fimm barna faðir og nýta eigi peninginn til stofnunar sérstaks neyðarsjóðs fjölskyldunnar.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 26. febrúar 2025.