Í síðustu viku rak stjórn blaðamannafélagsins Hjálmar Jónsson úr starfi framkvæmdastjóra. Hann hafði starfað í á þriðja áratug hjá félaginu og verið sannur haukur í horni blaðamanna. Það vita allir blaðamenn sem hafa þurft að sækja rétt sinn eftir að starfað á fjölmiðli sem rekinn var í þrot eða hafa hringt í hann á ókristilegum tíma úr Brekkuskógi til að fá nákvæmar leiðbeiningar um hvernig eigi að stilla hitann í pottinum.
Um árabil voru tveir starfsmenn á skrifstofu félagsins en það voru Hjálmar og Jóna Th. Viðarsdóttir skrifstofustjóri. Nú hefur Hjálmar verið fjarlægður af heimasíðunni og samkvæmt henni er skrifstofustjórinn eini starfsmaðurinn. Starfsfólki á skrifstofu fjölgaði samt á síðasta ári því þar eru tveir blaðamenn nú í hlutastarfi þó þeirra sé ekki getið á heimasíðunni. Þetta hlýtur allt að verða útskýrt á
aðalfundi félagsins, sem fer fram innan skamms.
Stjórn Blaðamannafélagsins bar fyrir sig trúnaðarbrest sem ekki yrði leystur meðan Hjálmar gegndi stöðu framkvæmdastjóra. Fljótlega kom í ljós að fleira hékk á spýtunni. Flestir fjölmiðlar fjölluðu um málið. Fram kom í máli Hjálmars að hann hefði talið formanninn ekki starfi sínu vaxinn og hafi ekki hreinan skjöld í eigin fjármálum og neiti að svara spurningum fjölmiðla um þau.
Þarna vísar Hjálmar til skattamála Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, stjórnarformanns Blaðamannafélagsins, en fram hefur komið að hún stóð fyrir umsvifamikilli útleigu á íbúðum um árabil án þess að greiða af því viðeigandi skatta og gjöld. Hjálmar hafði gagnrýnt Sigríði fyrir að svara ekki spurningum fjölmiðla um þau mál öll en eftir að skattamálin komu fram útskýrði hún þau stuttlega á Facebook-síðu sinni og tók síðan fram að hún myndi ekki tjá sig frekar um málið.
Þetta er sama Sigríður sem hefur gagnrýnt einhliða yfirlýsingar stjórnmálamanna og forsvarsmanna í erfiðum málum sem varða almenning. Þannig hafði fréttamiðillinn Vísir eftir henni í desember 2022:
„Það segir sig sjálft að stöðuuppfærsla eða einhver yfirlýsing eins og þetta er alltaf bara einhliða. Þetta er voðalega þægileg leið ef þú ert hræddur við að koma og reyna að svara spurningum, þá er þetta kannski auðveldasta leiðin en þetta er ekki heiðarlegasta leiðin.“
Og enn fremur:
„Almenningur ætti kannski að láta meira í sér heyra þegar svona gerist vegna þess að blaðamenn eru alltaf að reyna að ná í upplýsingar og fá svar við spurningum sem almenningur er að spyrja sig. Að þetta skuli vera látið óátalið er eitthvað sem við sem samfélag þurfum að stöðva.“
En þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar tjáði Sigríður svo sig um skattamál sín. Í samtali við vefsíðuna Mannlíf sagði Sigríður:
„Eins og ég hef sagt opinberlega, þá fékk ég endurálagningu gjalda eftir að það voru gerðar athugasemdir um framtal mitt og ég ætla ekki að fara í það eitthvað efnislega af því að ég var ekki til rannsóknar hjá Skattinum, ég fékk enga sérmeðferð og er ekki sek um það sem ég er sökuð um þarna.“
Þá fékk Sigríður sér sæti við Rauða borðið á Samstöðinni um helgina. Þar viðurkenndi hún að hafa talið rangt fram og að verulega háar upphæðir hafi verið undir í þeim efnum. Eða eins og hún orðaði það:
„Þetta voru alveg stórar upphæðir, ég viðurkenni það.“
Um þetta er að segja að það blasir við að Skatturinn sendir ekki endurálagningu nema rangt hafi verið staðið að gerð skattaframtals. Sé endurálagningin greidd þá er svo sem ekki ástæða til frekari eftirmála af hálfu yfirvalda – ekki nema Skatturinn telji ástæðu til að rannsaka saknæmt athæfi. Það sem skiptir máli í þessu samhengi og væri áhugavert að fá svör við er hvort Skatturinn hafi lagt álag ofan á endurálagninguna.
Skatturinn beitir sjaldnast álagi ef framtalið er rangt vegna vafaatriða um túlkun eða mistök hafa átt sér stað vegna einhvers konar klaufaskapar. Álagi er hins vegar beitt ef ásetningur er að baki röngu framtali. Ef um háar fjárhæðir er að ræða, eins og Sigríður viðurkennir að eigi við í hennar tilfelli, þá endurákvarðar Skatturinn og sendir svo málið í sakamálarannsókn.
Ein af ástæðunum fyrir brottvikningu Hjálmars var að sögn stjórnar Blaðamannafélagsins að ráða ætti nýjan framkvæmdastjóra til þess að ýta nýjum verkefnum og áherslum úr vör. Hægt er að lesa um þessar nýju áherslur í leiðara Sigríðar í nýjustu útgáfu Blaðamannsins.
Þær eru um margt forvitnilegar. Greinilegt er að ekki stendur til að gera fundargerðir stjórnar aðgengilegar á heimasíðu félagsins. (Innsk. þetta er ekki nákvæmt því félagsmenn geta nálgast fundargerðir frá maí 2022 til dagsins í dag) Þess í stað ætlar félagið að ráðast í herferð næsta haust sem er ætlað að hvetja almenning til þess að kaupa sér áskrift að fjölmiðlum. Það er ansi sérstakt að Blaðamannafélagið sé að beita sér fyrir þessu enda er það undir áskriftarmiðlum komið að framleiða efni sem almenningur hefur áhuga á að borga fyrir en ekki stéttarfélags. Ekki kemur fram hvort herferðin muni einnig ná til áskriftarefnis á borð við Blökastið og Ritstjóra Snorra Mássonar svo einhver dæmi séu tekin. Þá virðist félagið hafa af einhverjum óskiljanlegum ástæðum áform um að fara að taka að sér nýliðafræðslu blaðamanna.
En fjölmiðlarýnir fagnar hins vegar áformum Blaðamannafélagsins um að kaupa hlaðvarpsgræjur sem félagsmenn geta fengið aðgang að endurgjaldslaust og að félagið ætli að vera með reglulega hlaðvarpsþætti. Sem kunnugt er hafa fjölmiðlamenn afar takmarkað aðgengi að hlaðvarpsþáttum og fáheyrt að starfandi blaðamenn komi fram í slíkum þáttum. Þetta útspil Blaðamannafélagsins mun laga þetta ófremdarástand. Þá er líka sérstakt fagnaðarefni að enn einn lögaðilinn ætli að fara að halda úti hlaðvarpsþætti og mun Fjölmiðlavarpið vafalaust veita hlaðvarpi Fjölmiðlanefndar kærkomna samkeppni.
Þetta er hluti úr Fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins sem birtist í blaðinu sem kom út 17. janúar. Rýnina má lesa í heild sinni hér.