Fjölmiðlafrelsi er fótum troðið á Íslandi og blaðamenn eiga í stöðugri hættu að vera ofsóttir af áhrifamönnum í viðskiptum og stjórnmálum. Þetta er undirliggjandi þráður í tveimur fréttum sem birtust í Heimildinni annars vegar og Ríkisútvarpinu hins vegar í síðustu viku. Tilefnið var að samtökin Fréttamenn án landamæra gáfu út vísitölu sína um fjölmiðlafrelsi víðsvegar í heiminum.
Í fréttaskýringu um málið fullyrðir Þórður Snær Júlíusson, annar af ritstjórum Heimildarinnar, að Ísland hafi „hrapað“ niður liður lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum. Þetta er frekar vafasöm fullyrðing. Ísland fellur um þrjú sæti milli ára og fær fleiri stig en í fyrra. Með öðrum orðum hefur fjölmiðlafrelsi aukist milli ára samkvæmt vísitölunni. Auk þess er Ísland eftir sem áður eitt af þeim ríkjum þar sem fjölmiðlafrelsi er mest í heiminum samkvæmt Fréttamönnum án landamæra og er í 18. sæti.
En til að réttlæta framsetningu sína setur Þórður niðurstöðuna að Ísland hafi áður mælst ofar. Þórður skrifar:

„Frá þeim tíma hefur Ísland hrapað hratt á listanum. Fyrsta fallið kom á árunum 2015 og 2016, þegar Ísland féll niður í 19. og 21. sæti listans. Það var komið í 10. sæti árið 2017 og hefur verið í 15. til 16. sæti á síðustu árum. Nú er Ísland, líkt og áður sagði, komið í 18. sætið.“

Þarna virðist frekar hrapað að ályktunum fremur en annað. Rétt er að taka fram að sérstaklega er tekið fram á heimasíðu Fréttamanna án landamæra að forðast eigi að bera niðurstöður könnunarinnar saman við niðurstöður eldri kannana eins og Þórður gerir. Aðferðafræðinni hafi verið breytt árið 2021 og því eru nýrri kannanir ekki samanburðarhæfar við eldri kannanir.

Þrátt fyrir að kannanir sem þessar gefi vafalaust vísbendingar um stöðu fjölmiðlafrelsis í hverju landi fyrir sig má ekki líta á þær sem hávísindalegar greiningar á stöðu mála. Um er að ræða mælingu á þáttum sem eru í eðli sínu matskenndir og sínum augum lítur hver á silfrið í þessum efnum sem öðrum. Könnunin er gerð með þeim hætti að Fréttamenn án landamæra velja hóp sérfræðinga til þess að svara spurningakönnun um stöðu fjölmiðlafrelsis í viðkomandi landi. Ekki þarf að velta lengi fyrir sér til hvaða sérfræðinga var leitað hér á landi í ljósi þeirrar staðreyndar að helsta ógnin við fjölmiðlafrelsi á Íslandi samkvæmt könnuninni er Samherji og önnur sjávarútvegsfyrirtæki og að Alþingi sé vettvangur fyrir harða gagnrýni á fjölmiðlamenn.

***

Ríkisútvarpið tekur sama pól í hæðina og Heimildin og lítur fram hjá þeirri staðreynd að könnun Fréttamanna án landamæra er ekki samanburðarhæf við eldri kannanir. Í frétt ríkismiðilsins er algjörlega litið fram hjá þeirri staðreynd að nánast engin breyting er á stöðu mála hér á landi milli ára en þeim mun meiri áhersla er lögð á að spinna þráð Heimildarinnar áfram um að fjölmiðlafrelsi á Íslandi sé á hraðri niðurleið.
Í umfjöllun Ríkisútvarpsins er rætt við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélagsins og starfsmann fréttastofu RÚV. Eftirfarandi er haft eftir henni

„Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að neikvæð orðræða stjórnvalda í garð fjölmiðla stuðli að sjálfsritskoðun og hafi hamlandi áhrif á öfluga fréttamennsku.“

Áhugavert væri að Sigríður skýrði þetta frekar. Stundar hún eða aðrir starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins sjálfsritskoðun?

Í umfjöllun RÚV er sagt að Sigríður hafi flutt fyrirlestur fyrir nema í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar um frelsi fjölmiðla. Fréttamaður RÚV ræddi við ungmennin eftir fyrirlesturinn. Áhugavert er hvaða hughrif hann vakti hjá þeim. Í fréttinni segir:

„Þau töldu starfsumhverfi fjölmiðlafólks vera talsvert ógnvekjandi þar sem reynslan hefði sýnt að ef mál stórra aðila væru upplýst gæti það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fréttamanninn. Sumir hefðu jafnvel þurft að hætta í starfi vegna þess.“

***

Sá sem þetta skrifar hefur bæði starfað sem blaðamaður og umgengist blaðamenn í miklu mæli í áratugi. Ekki kannast hann við að þeir telji starfsumhverfið ógnvekjandi. Umkvörtunarefnin eru talsverð en fæst þeirra snúa að ógnunum og kúgunartilburðum valdafólks.

Þetta er brot úr Fjölmiðlarýni sem er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. maí 2023.