Á baksíðu Viðskiptablaðsins þann 30. júní sl. fer framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) með himinskautum í fullyrðingum um stjórnsýslu og framkvæmd tollamála hér á landi.
Gengur hann svo langt að halda því fram að íslenzka tollskráin sé hindrun í viðskiptum við aðildarríki ESB. Það er með ólíkindum að ritstjórn Viðskiptablaðsins, sem fjallar reglulega um alþjóðaviðskipti og tengd mál, birti málflutning af þessu tagi á baksíðu blaðsins.
Ísland er aðili að Alþjóðatollastofnuninni
Í dag eiga 182 ríki og landsvæði aðild að Alþjóðatollastofnuninni, WCO. Þeirra á meðal eru ESB og aðildarríki þess, auk Íslands. Með aðild sinni að Alþjóðatollastofnuninni hefur Ísland, eins og ESB, undirgengist samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá stofnunarinnar. Í henni eru allar vörur, sem verslað er með í milliríkjaviðskiptum, skýrgreindar og gefið sex tölustafa tollskrárnúmer. Þetta tryggir að ekki fer á milli mála um hvaða vörur er að ræða hverju sinni. Þannig verður ostur alltaf ostur og kjöt alltaf kjöt – m.ö.o. eru vörur fluttar milli ríkja á sama grundvelli án tillits til þess hvaða ríki á við hverju sinni. Tollskrár aðildarríkja Alþjóðatollastofnunarinnar byggja á þessari vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem tryggja á samræmi í framkvæmd. Viðskiptasamningar milli ríkja byggja síðan á þessari sameiginlegu vörulýsingar- og vörunúmeraskrá og enn fremur með vísun í tollskrár samningsaðila. Aðildarríkjum Alþjóðatollastofnunarinnar er heimilt að búa til ítarlegri flokkun á þessa aðalflokka (sex stafa tollskrárnúmer) með því að nota átta (hér á landi) eða jafnvel tíu stafa tollskrárnúmer (innan ESB).
Ísland er fullvalda ríki og ræður tollamálum sínum
Fullyrðing framkvæmdastjóra FA um að það þurfi að vera algjört samræmi milli tollskrár Íslands og tollskrár ESB opinberar grundvallarmisskilning af hans hálfu.
Eins og fyrr segir ber Íslandi eins og öðrum að virða sameiginlega vörulýsingar- og vörunúmeraskrá Alþjóðatollastofnunarinnar. Á hinn bóginn er Ísland ekki aðili að ESB. Í því felst að Ísland er ekki hluti tollabandalags ESB, sem er ein af grunnstoðum ESB. Ísland ræður þvert á móti eigin tollamálum, þ.m.t. hversu háir tollar skulu vera t.d. á erlendum landbúnaðarvörum og hvernig íslensk tollalög eru túlkuð í framkvæmd. Það að tollflokkun milli þessara aðila, Íslands og ESB, er samræmd á fyrstu sex stafi tollskrárnúmers breytir ekki þeirri staðreynd að þessir sjálfstæðu aðilar ráða fjárhæð tolla og hvernig einstakar vörur eru tollflokkaðar nánar við innflutning.
Rangfærslur um tollamál
Í tilvitnaðri grein segir framkvæmdastjóri FA m.a.: „Ýmis dæmi eru um fyrirtæki sem hafa flutt inn vörur á tollskrárnúmerum í góðri trú vegna þess að útflytjandi í ESBríki hafði vissu fyrir því frá þarlendum tollayfirvöldum að þannig ætti að flokka vöruna en svo fengið bakreikning frá íslenska tollinum. Mismunandi tollflokkun og túlkanir á alþjóðlegu tollskránni eru því augljós viðskiptahindrun á EES.“
Manni verður fyrst á að spyrja: Trúir framkvæmdastjórinn sjálfur því sem hann skrifar hér? Veit hann ekki að Ísland er einmitt ekki aðili að tollabandalagi ESB og fer sjálft með sitt tolla- og skattlagningarvald og gerir sjálfstætt viðskiptasamninga m.a. við ESB? Viðskiptakjör einstakra landbúnaðarvara eru umsamin og ráða aðilar samninganna sjálfir hvernig framkvæmd sinna tollalaga er að öðru leyti háttað.
Um viðskiptastefnu og tolla í öðrum löndum
Öll ríki heimsins beita sköttum og tollum til að framfylgja stefnu stjórnvalda, þar á meðal ESB. Óhætt er að fullyrða í þessu sambandi að ESB er mjög umsvifamikið í tollvernd og þá ekki síst hvað varðar landbúnaðarvörur.
Þannig leggur ESB almennt tolla á allar mjólkurafurðir sem fluttar eru inn til aðildarríkja þess. Þá eru aðeins 28,4% af tollskrárnúmerum fyrir aðrar afurðir af dýrum tollfrjáls í ESB; 19,8% af ávöxtum, grænmeti og plöntum; og aðeins 18,4% tollskrárnúmerum sem falla undir drykki (þ.m.t. vín) og tóbak. Við þetta bætast kröfur sem gerðar eru til innfluttra vara af mörgu tagi, s.s. á grundvelli staðla og heilnæmis.
Spyrja má í þessu samhengi af hverju þjóðríkið Ísland ætti að beita sér öðruvísi en flest önnur ríki heims þegar kemur að stefnu í framleiðslu matvæla.
Íslensk-evrópska verslunarráðið ályktar um tollamál
Til að kóróna málflutninginn vitnar framkvæmdastjórinn í ályktun frá aðalfundi Íslensk-evrópska verslunarráðsins. Rétt er að vekja athygli lesandans á að þetta verslunarráð er vettvangur á vegum FA, eins konar útibú sem fjallar um viðskipti við Evrópulönd, einkum ESB.
Í ályktun verslunarráðsins er það borið upp á íslensk stjórnvöld að með því að tollflokka vöru „…með öðrum hætti en gert er á stærsta markaðssvæði íslenskra fyrirtækja…“ sé „… búið til skálkaskjól…“ fyrir íslensk stjórnvöld til að fara ekki að samningum sem það hefur gert við önnur lönd.
Umræðan verður að byggja á staðreyndum
Hér er gengið fram með gífuryrðum sem standast enga skoðun. Vörulýsingar- og vörunúmeraskrá Alþjóðatollastofnunarinnar liggur til grundvallar tollskrám aðildarríkja stofnunarinnar, þ.m.t. ESB og Íslands. Viðskiptasamningar milli Íslands og ESB taka síðan til tiltekinna vöruflokka samkvæmt tollskrám hvors lands um sig og fara eftir atvikum niður á einstök tollskrárnúmer. Þetta er tilgreint í samningunum sjálfum og opinberri tollskrá sem allir sem eiga í viðskiptum geta kynnt sér. Er beinlínis fráleitt að halda því fram að ekki sé farið eftir þessu af hálfu íslenskra stjórnvalda Grein framkvæmdastjóra FA sýnir að allnokkuð skortir á skilning á málaflokknum. Betra er að fara rétt með grundvallaratriði þegar þessi mál eru til umfjöllunar.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 7. júlí 2022