Á yfirborðinu virðist staða efnahagsmála standa traustum fótum hér á landi – við fyrstu sýn að minnsta kosti. Eins og bent hefur verið á er verðbólga hér á landi lægri um þessar mundir en gengur og gerist í Evrópu. Skiptir þar mestu máli að íslenskur orkumarkaður er ótengdur hinum evrópska og þar af leiðandi hafa hinar gegndarlausu orkuverðshækkanir sem hafa dunið á Evrópuríkjum vegna innrásarinnar í Úkraínu ekki haft áhrif hér á landi. Á sama tíma virðast vaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu hafa snöggkælt fasteignamarkaðinn.
Þrátt fyrir þetta er brýnt að þeir sem stýra þjóðarskútunni geri sér grein fyrir því að staðan er tvísýn og ekki er hægt að útiloka að válynd veður í efnahagslegum skilningi séu fram undan. Sérfræðingar í efnahagsmálum klifa á klisjum á borð við að fimbulvetur sé í vændum á meginlandinu í efnahagslegum skilningi. Mikilvægt er að menn átti sig á því að frosthörkur á meginlandinu munu á endanum hafa áhrif hér á landi.
Margt bendir til þess að ráðamenn horfi á stöðuna af fullmikilli léttúð. Fjárlög næsta árs voru lögð fram í síðustu viku. Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu sem birt var við það tilefni segir:
„Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað hratt, ekki síst vegna hækkunar orkuverðs, og hætta er á að staðan versni enn meira í Evrópu. Áhrif þessa hafa verið takmörkuð á Íslandi, enda er hlutfall endurnýjanlegrar orku óvíða hærra en hér, sjávarútvegur stendur vel og mikil eftirspurn er eftir innlendri ferðaþjónustu. Erlendir ferðamenn eru nú jafn margir og fyrir faraldurinn. Útlit er fyrir að í ár verði hagvöxtur á Íslandi einn sá mesti meðal aðildarríkja OECD og verðbólga er hér næstlægst í Evrópu á samræmdan mælikvarða.“
Eins og bent var á í Viðskiptablaðinu í síðustu viku kunna þessi orð að lýsa stöðunni eins og hún blasir við í dag en þau segja ekkert til um hvað mun taka við þegar líða tekur á veturinn. Þau teikn sem eru á lofti lofa ekki góðu.
Ljóst er að miklar hækkanir á orkuverði munu hafa djúpstæð áhrif á framleiðslukostnað í Evrópu. Það eitt og sér mun hafa mikil áhrif á stöðu mála. Að sama skapi er nánast útilokað að vaxtastig beggja vegna Atlantsála muni halda áfram að hækka með tilheyrandi afleiðingum á eftirspurn. Geta stjórnvalda í vestrænum ríkjum til þess að spyrna við þessum vanda með enn frekari skuldsetningu og útgjaldaaukningu er í fæstum tilfellum lengur til staðar enda er sú efnahagslega atburðarás sem við erum að verða vitni að öðrum þræði afleiðing slíkra aðgerða. Ef allt fer á versta veg má ganga út frá því sem vísu að þeir sem eru skuldsettastir – gildir þá einu hvort um sé að ræða ríkissjóði eða fyrirtæki – munu standa verst að vígi þó svo að enginn verði óhultur fyrir afleiðingum ástandsins.
Öllum má vera ljóst að þessi þróun mun vega þungt þegar kemur að eftirspurn eftir okkar helstu útflutningsvörum: áli, ferðaþjónustu og sjávarfangi. Í skugga þessa eru svo kjaraviðræður að hefjast hér á landi. Hin herskáa fylking er í þann mund að ná algjörum undirtökum í verkalýðshreyfingunni. Þessi fylking hefur sýnt í orði og á borði að hún hefur ekkert skynbragð á hinn efnahagslega veruleika sem Íslendingar standa frammi fyrir um þessar mundir. Það er ekki gæfulegt innlegg inn í þær kjaraviðræður sem nú eru að hefjast. Það er engin ástæða til þess að mála skrattann á vegginn að óþörfu. Þrátt fyrir að allar líkur séu á niðursveiflu í helstu hagkerfum heims þá þarf ekki allt að fara á versta veg hér á landi. En til að það gerist ekki þarf að takast á við vandamálin og úrlausnarefni af raunsæi og festu. Forsendan fyrir því er að menn átti sig á stöðu mála og horfist í augu við það sem kann að vera framundan. Hagstæð skilyrði um þessar mundir eiga ekki að hafa áhrif á hvernig úrlausnarefnin fram undan eru greind.