Gullhúðun Evrópureglna hefur verið dálítið í sviðsljósinu að undanförnu. Hún felst í því að við innleiðingu EES-reglna í landslög bæta stjórnvöld séríslenzkum, íþyngjandi reglum við hana.
Eftir áralanga gagnrýni hagsmunasamtaka í atvinnulífinu hefur ríkisstjórnin loksins lýst yfir vilja sínum til að hamla gegn þessari þróun. Utanríkisráðherra skipaði starfshóp, sem hefur sett saman tillögur um hvernig megi sporna við gullhúðun og helzt vinda ofan af henni. Sumir hafa viljað kalla þessa tilhneigingu embættismanna til að bæta heimasmíðuðum reglum við EES-reglurnar blýhúðun, vegna þess hversu íþyngjandi hún er. Það stuðlar líka ágætlega við blýantanagarana, eins og embættismannakerfið er stundum kallað í skensi.
Félag atvinnurekenda og Íslensk-evrópska verslunarráðið héldu fund á dögunum þar sem fjallað var um gullhúðun og leiðir til að vinna gegn henni. Þar komu fram ábendingar frá fundargestum um að ýmis dæmi væru um að jafnvel þótt Evrópulöggjöfin væri innleidd með sama hætti og í samkeppnislöndum Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. ekki gullhúðuð, túlkuðu opinberar eftirlitsstofnanir hana með þrengri og meira íþyngjandi hætti en tíðkaðist annars staðar á EES.
Á fundinum stakk einhver upp á að kalla þetta blýskýringu og það má alveg heita það – íþyngjandi túlkanir á evrópska regluverkinu leiða til sömu niðurstöðu og íþyngjandi ákvæði sem er bætt inn í það. Íslenzk fyrirtæki bera þyngri reglubyrði en þau ættu að gera og það skaðar samkeppnishæfni þeirra.
Að mati þess sem hér heldur á penna snúast blýskýringarnar, rétt eins og gullhúðunin, að einhverju leyti um skort á pólitískri forystu og opinberri stefnumótun. Það þarf að vera skýrt að það sé ekki ætlazt til þess af hinu opinbera kerfi – sem yfirleitt þykist nú hafa nóg að gera – að stuðla að flóknara regluverki en nauðsyn krefur eða að það sé túlkað með íþyngjandi hætti.