Hrafnarnir sögðu í gær frá ofurlaunum Dags B. Eggertssonar í desembermánuði. Við þá frásögn má bæta að þegar Friðjón Friðjónsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins benti á að Dagur hefði ekki enn sagt af sér sem borgarfulltrúi, hvítnaði einn fundarmanna í framan.
Hrafnarnir fengu sérfræðing til að meta litinn í andliti hans. Sá notaðist við litakort Slippfélagsins og mat það svo að liturinn í andliti háttvirts varaborgarfulltrúa Viðreisnar væri mitt á milli arkitektahvíts og ektahvíts.
Litabrigðin í andliti hins viðkunnarlega Pawel Bartoszek sögðu okkur alþýðunni, að hann hafi leikið sama leik og hinn snjalli, verkefnalausi en úthvíldi Dagur B. Eggertsson.
Tekið út tvöföld laun með því að þreyja þorrann og halda áfram í borgarstjórn þar til upp um hann kæmist. Rúmar fjórar milljónir eru það víst sem Pawel fékk greitt frá skattgreiðendum um áramót.
Það er auðvitað svolítið broslegt í ljósi þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og skuggafjármálaráðherra biður um niðurskurðartillögur hjá ríkinu.
Þorgerður ætti ef til vill að líta sér nær, líkt og stundum áður.