Samhengi hlutanna vantar oft inn í umræðuna, stundum er það skaðlítið, oft er það vont og af og til grafalvarlegt, dýrt fyrir skattgreiðendur og mótdrægt hagsmunum þeirra sem hér búa og nota fjölbreytta þjónustu.

Í liðinni viku mætti nýr samgönguráðherra staffírugur og tók fyrstu skóflustungu fyrir nýja göngu- og hjólabrú yfir Fossvog, sem á nú að kosta um 9 milljarða en mun að líkindum enda í hærri tölu. Hreint ótrúlega mikið hærri upphæð en gert var ráð fyrir þegar verkefnið var platað inn á kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi. Þetta er sagt vera fyrsta verkefni fyrsta hluta Borgarlínunnar.

Ráðherranum var í raun vorkunn að þurfa að mæta þarna sé horft til afstöðu hans og Flokks fólksins til Borgarlínunnar og þá sérstaklega brúarinnar yfir Fossvog, en það var áður en sæti var tryggt við ríkisstjórnarborðið. Veldur hver á heldur en þau eru komin í æfingu.

Fjármögnun samgöngumannvirkja

Það gekk treglega að fá heildstæða nálgun á fjármögnun samgöngumannvirkja frá fyrri ríkisstjórn. Allt sem þaðan kom í þeim efnum var heldur brotakennt og á köflum sundurlaust.

Ný ríkisstjórn hefur ekki enn sýnt á spilin í þessum efnum, nema þá helst að endurtaka möntruna um að þeir borgi sem noti. Sú nálgun getur verið prýðileg og gæfi tækifæri til að lækka almenna skatta umtalsvert væri henni ekki bara beint að jafn afmörkuðum hluta þess sem hið opinbera vasast í og raunin er.

Raunar blasir við að einvörðungu er rætt um að þeir „borgi sem nota“ í samhengi við notkun fjölskyldubílsins á vega- og gatnakerfinu og svo fyrir akstur fyrirtækjabifreiða, stórra og smárra.

Enn hef ég ekki heyrt neinn sem talar með þessum hætti útskýra hvernig væri rétt að gjaldtaka hjólreiðamenn fyrir þann kostnað sem af hjólastígunum hlýst, lagning þeirra, viðhald og vetrarþjónustu. Væri það best gert með sérstökum innfluttningstolli á reiðhjól? Nú eða himinháum sköttum á dekk reiðhjóla?

Jafn oft, samanlagt aldrei, hef ég heyrt tillögur um með hvaða hætti rétt væri að gjaldtaka þá sem nota göngustíga við götur og vegi. Eiga þeir sem nota ekki að borga?

Sama á auðvitað við um ótalmargt sem hið opinbera, ríki eða sveitarfélög byggja upp fyrir skattfé. En einhverra hluta vegna er það fyrst og fremst einn þáttur sem er tengdur við „þeir borga sem nota“ hugmyndafræðina. Hvers vegna er það?

Þegar góðar lausnir óskast ekki

Skakkasta myndin í þessum efnum teiknast upp í tengslum við verkefni Borgarlínu innan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, undir hatti nýju Vegagerðarinnar sem nú heitir Betri samgöngur ohf.

Ég hef enn ekki hitt þann stjórnmálamann sem leggst gegn bættum almenningssamgöngum en sú yfirdrifna lausn sem nú er unnið að kippir úr sambandi samhengi kostnaðar og ávinnings. Hjá talsmönnum Borgarlínukirkjunnar virðist engu skipta hver kostnaðurinn verður, hvorki framkvæmdakostnaður né rekstrarkostnaður þegar þar að kemur.

„Það bara verður að gera eitthvað“ segja þeir sem eru mest rökþrota og loka á sama tíma augunum fyrir leiðum sem hægt er að fara að því marki að stórbæta umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu og bæta um leið almenningssamgöngur verulega frá því sem nú er. Vísa ég þar til dæmis til hugmynda Þórarins Hjaltasonar, sem er einn af reynslumestu sérfræðingum okkar í þessum efnum.

Af hverju vilja þessir aðilar ekki skoða haganlegri lausnir? Er sérstakt markmið að viðhalda þeim vandamálum sem eru í kerfinu? Eru heimatilbúnar umferðartafir á endanum eina leiðin sem menn hafa til að réttlæta framhald þungu Borgarlínunnar? Það sé jú búið að verja svo miklum tíma og peningum í að undirbúa mistökin að menn verði bara að fá að klára þau.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins.