Af einhverjum ástæðum hefur fjárhagsstaða Reykjavíkur vafist fyrir mörgum á síðustu árum. Þeir sem hafa bent á kennitölur í reikningum borgarinnar sem sýnt hafa alvarlega stöðu fjármála borgarinnar hafa verið sakaðir um áróður og blekkingar til að koma höggi á meirihlutann í borginni.
Skemmst er að minnast þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, gagnrýndi harðlega þá fjölmiðla sem hafa burði til að fjalla um fjármál borgarinnar og hótaði að þeim yrði refsað með sviptingu fjölmiðlastyrkja frá ríkinu.
Dagur B. Eggertsson steig upp úr stól borgarstjóra í janúar. Við þau tímamót birtust við hann nokkur fjöldi viðtala í fjölmiðlum þar sem hann gerði upp borgarstjóraferil sinn. Af þeim viðtölum mátti skilja á Degi að allt tal um alvarlega fjárhagsstöðu borgarinnar væri pólitískur áróður andstæðinga þó svo að niðurstöður árshlutauppgjöra og takmarkaður áhugi markaðarins á skuldabréfum borgarinnar bentu til annars.
Einar Þorsteinsson, eftirmaður Dags á borgarstjórastól, var til viðtals í hlaðvarpinu Chess After Dark á dögunum. Viðtalið er fyrir margra sakir eftirtektarvert. Ekki síst vegna þess að þar lýsir Einar grafalvarlegri fjárhagsstöðu borgarinnar við upphaf kjörtímabilsins.
Einar lýsir því hvernig veltufé frá rekstri var neikvætt við upphaf kjörtímabilsins. Einar segir:
„Í raun og veru áttum við ekkert eftir þegar við vorum búin að borga lán og laun og vorum að fjármagna reksturinn á lánum.“
Einar kveður svo sterkt að orði að honum hafi hreinlega fallist hendur vegna stöðunnar í fjármálum borgarinnar við upphaf kjörtímabilsins. Halli A-hlutans var strax orðinn 8,9 milljarðar króna á fyrri árshelmingi 2022, samkvæmt hálfsársuppgjöri sem birt var í september. Rekstrarniðurstaða A-hlutans fyrir árið 2022 í heild sinni var neikvæð um 15,6 milljarða.
Þá lýsir Einar hagræðingaraðgerðum sem borgarstjórinn segir að séu farnar að skila árangri en það vekur athygli að hann segir að erfitt hafi verið fyrir hann að fá yfirsýn yfir hversu margir starfa hjá borginni. Þrátt fyrir árangurinn er staðan viðkvæm að sögn Einars:
„Þetta er samt brothætt, af því að þetta er bara á nippinu. Það er enn þá verðbólga og vextir eru enn þá ótrúlega háir og fjármagnskostnaðurinn er ógeðslega mikill.“
Lýsing Einars á fjárhagsstöðu borgarinnar í viðtalinu vekur upp margar áleitnar spurningar, svona í ljósi þess hvernig sumir fulltrúar borgarmeirihlutans hafa talað á liðnum árum og færi vel á því ef fjölmiðlar fjölluðu frekar um þau mál öll.
Miklar sviptingar hafa verið í flokkstarfsemi Pírata að undanförnu. Núningur myndaðist milli nýrrar stjórnar og fráfarandi framkvæmdastjórnar á aðalfundi stjórnmálaflokksins á dögunum.
Þetta varð meðal annars til þess að Atla Þór Fanndal, samskiptastjóra flokksins, var sagt upp störfum vegna ósættis þingflokks Pírata við afskipti hans af kjöri nýrrar framkvæmdastjórnar á aðalfundinum og í framhaldinu var reglum flokksins breytt til að varamenn í stjórn gætu haft ríkari áhrif á það sem þar fram fer.
Bæði Heimildin og Morgunblaðið fjölluðu um ólguna í flokknum og eftirmál aðalfundarins. Í umfjöllun Heimildarinnar var meðal annars ljósi varpað á mikla starfsmannaveltu hjá Pírötum og báðir miðlar fjölluðu um það sem virðist vera tilraunir þingmanna flokksins til að halda áhrifum sínum innan framkvæmdastjórnarinnar. Þetta varð til þess að Halldór Auðar Svansson, nýkjörinn formaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði af sér embætti eftir aðeins þrjár vikur í starfi og við tók Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir.
Af þessum umfjöllunum að dæma er hver sáttahöndin upp á móti annarri í starfi flokksins. Þetta virðist hins vegar hafa algjörlega farið fram hjá fréttamönnum Ríkisútvarpsins. Þann 30. september birtist frétt á vef ríkismiðilsins með fyrirsögninni: Enginn ágreiningur innan framkvæmdastjórnar Pírata um formannsskipti. Þar með er málið væntanlega útrætt af hálfu Ríkisútvarpsins.
Að minnsta kosti hefur það ólíkt Morgunblaðinu og Vísi ekki sagt frá því að skjáskot úr spjalli hóps sem teng-ist starfi Pírata á samskiptaforritinu Signal voru sýnd og tekin til umræðu á fundi þing-flokks Pírata í kjölfar þess að ný framkvæmdastjórn var kjörin í Hörpu 7. september.
Eins og segir í frétt Morgunblaðsins um málið þá innihélt spjallið sem um ræðir samtöl fólks sem bauð sig fram til framkvæmdastjórnar og fékk þar brautargengi, þvert á vilja þungavigtarfólks í flokknum. Fólk í hinni nýju stjórn upplifði tortryggni í sinn garð eftir niðurstöðu kjörsins.
Skjáskot af einkaskilaboðum og dreifing þeirra á netinu, ánsamþykkis, er hegningarlagabrot.
Andrés Magnússon, ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins og forveri fjölmiðlarýnis hér á Viðskiptablaðinu, fjallaði um fréttaskýringaþáttinn Þetta helst sem fluttur er á Rás 1 í ljósvakapistli í blaðinu á dögunum. Þátturinn er í umsjón Inga Freys Vilhjálmssonar sem var ráðinn til RÚV en hann starfaði áður á Heimildinni.
Fyrir nokkrum vikum fjallaði Ingi Freyr um stöðuna á fasteignamarkaðnum í ljósi vaxtastigsins í landinu. Í þættinum var rætt við hagfræðing hjá ASÍ, vörustjóra í Arion banka og einn þeirra lántakenda sem nú berjast við hærri afborganir af lánunum sínum. Andrés skrifar:
„Það var Alma Mjöll Ólafsdóttir, „rúmlega þrítug móðir sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavík“ en til þess að dramað færi ekki fram hjá neinum var viðtalið tekið „í kyrrstæðum bíl fyrir framan Vesturbæjarlaugina“!
En var það nú fullnægjandi kynning? Alma er ekki beinlínis fulltrúi séreignarsinna, þverskurður reykvískrar alþýðu, valinn með slembiúrtaki, heldur fyrrverandi starfssystir Inga Freys af Heimildinni, en er nú framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna. Þúsundir eru í sams konar stöðu, svo valið vekur spurningar og hin pólitíska tenging við einn stjórnarflokkinn líka, en það er þessi villandi kynning, sem er ótæk.”
Við þetta má svo bæta að Ingi Freyr tók við umsjón fréttaskýringaþáttarins af Sunnu Valgerðardóttir þegar hún lét af störfum og fór að vinna fyrir þingflokk Vinstri grænna fyrr á þessu ári. Menn eru ekki að sækja vatnið yfir lækinn þarna í Efstaleitinu.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. október 2024.