Hrafnarnir sáu athyglisvert viðtal við Boris Johnson fyrrum forsætisráðherra Bretlands á CNN í vikunni. Þar lýsir hann ólíkri afstöðu helstu ríkja Evrópusambandsins í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu. Engum duldist hvaða hildarleikur væri í vændum en að sögn Borisar voru skiptar skoðanir í höfuðborgum Evrópu á hvernig bregðast ætti við. Boris segir að þýsk stjórnvöld hafi litið svo á að ef innrás væri óumflýjanleg væri ekkert annað að gera að vonast að Rússar náðu fullnaðarsigri sem fyrst.

Þá segir Boris að Mario Draghi forsætisráðherra Ítalíu hafi sagt bakvið tjöldin að hann gæti ekki stutt þvingunaraðgerðir gagnvart Rússum sökum hversu ríkið væri háð Kremlarbændum um orkukaup og að Macron Frakklandsforseti hafi flotið sofandi að feigðarósi. Af þessu sögðu rifja hrafnarnir upp að Viðreisn taldi innrásina setja Evrópumálin á dagskrá og Ísland þyrfti að vera hluti að þeirri miklu samstöðu sem væri að finna í ESB á viðsjárverðum tímum.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 24. nóvember 2022.