Reglulega koma fram hugmyndir þess efnis að breyta skattlagningu lífeyrissparnaðar þannig að iðgjald verði skattlagt áður en það er lagt fyrir en í staðinn greiðist enginn tekjuskattur við töku lífeyris. Með þessari breytingu yrði horfið frá núverandi fyrirkomulagi um að fresta sköttum af sparnaðinum til lífeyrisaldurs. Þannig fengi ríkið skatttekjur fyrr og með því að taka skatt af uppsöfnuðum eignum lífeyrissjóða gæti ríkið einnig sótt dágóða eingreiðslu sem nýta mætti til góðra hluta.

Lífeyrissparnaður felst í að fresta neyslu og tekjuskatti af þeim hluta launa sem er lagður fyrir. Líta má á iðgjald sem er greitt í lífeyrissjóð sem tvo hluta, frestuð neysla og frestaðir skattar. Þegar fólk greiðir í lífeyrissjóð frestar það að nota hluta af launum eftir skatta með það að markmiði að nota féð þegar látið er af störfum vegna aldurs. Þar sem iðgjald greiðist óskattlagt í lífeyrissjóð er tekjuskattgreiðslu einnig frestað til þess að greiða skatta af lífeyrisgreiðslum. Á „geymslutíma“ fjárins bætist ávöxtun við báða hluta þannig að bæði einstaklingur og ríki fá sparnaðinn greiddan með uppsafnaðri ávöxtun.

Flest lönd sem hafa þróað góð lífeyriskerfi hafa valið að fara þessa leið. Má þar nefna Bandaríkin, Bretland, Chile, Finnland, Holland, Japan, Noreg, Kanada, Sviss og Þýskaland. Þessi lönd og Ísland eru metin í þremur efstu flokkum Mercer vísitölunnar sem ber saman lífeyriskerfi í ólíkum löndum.

Hugmyndin um að skattleggja lífeyrissparnað fyrirfram er til þess fallin að leggja byrðar á framtíðarkynslóðir. Breytingin vegur að grunnforsendum lífeyrissjóðakerfisins sem er að hver kynslóð safnar fyrir sig og að uppsafnaður eftirlaunasparnaður greiði hvort tveggja einkaneyslu og samneyslu (skatta). Ef fallist yrði á þessa tillögu verður afleiðingin sú að stór hluti fólks á lífeyrisaldri mun greiða mjög lágan eða engan tekjuskatt eða útsvar af tekjum. Í þessu sambandi er ágætt að hafa í huga að mannfjöldaspá Hagstofunnar spáir því að á næstu árum og áratugum muni fólki 67 ára og eldri fjölga úr 50 þúsundum í tæp 90 þúsund um miðja öldina og yfir 160 þúsund upp úr 2070. Ef þessi hópur greiðir litla sem enga skatta er líklegt að skattbyrði fólks á vinnualdri aukist ef opinber þjónusta á ekki að minnka.

Íslendingar hafa gert vel með að koma sér upp öflugu lífeyriskerfi sem byggir að stórum hluta á sjóðsöfnun og lífeyrissjóðum. Á næstu árum fara fjölmennir árgangar á eftirlaun sem eiga þokkaleg lífeyrisréttindi og þurfa ekki reiða sig á stuðning frá næstu kynslóð. Það væri slæmt til afspurnar ef þessu fyrirkomulagi yrði breytt og auknum fjárhagslegum byrðum varpað á börnin okkar og framtíðarkynslóðir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.