Týr var ekki spenntur fyrir því að horft yrði til Reykjavíkurmódelsins með afbrigðum þegar kemur að stjórn landsmálanna. Það var ekki að ástæðulausu.
Oddvitar stjórnarflokkanna kynntu þingmálaskrána á fundi með blaðamönnum á mánudag. Það vakti athygli Týs að eitt fyrsta málið sem bar á góma á fundinum var tilkynning Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, um að örorku- og lífeyrisþegar myndu eftir sem áður fá greidda desemberuppbót líkt og á undanförnum árum. Það kom Tý á óvart að ekki var tilkynnt í framhaldinu um að ríkisstjórnin myndi halda áfram að styðja við hundahald í sveitum, en það er svo sem önnur saga.
Inga hefur fengið þetta í gegn ásamt því að breyta reglum um styrki til fjölmiðla þannig að styrkir til fjölmiðla sem hafa haft frumkvæði að fjalla um mál sem eru óþægileg fyrir ríkisstjórnina verði skertir.
Á sama tíma og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur boðar þetta er meirihlutinn í Reykjavík að vinna gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar. Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur lagt til að gatnagerðargjöld í Reykjavík verði hækkuð um 85% frá og með 1. september og verður tillagan tekin til umfjöllunar í vikunni. Væntanlega er tillagan til marks um hversu vel meirihlutanum hefur gengið við að ná stjórn á fjármálum borgarinnar.
Eins og bent var á í umfjöllun Viðskiptablaðsins þá mun kostnaður vegna gjalda greiddra til borgarinnar eftir breytingarnar nema um tíu milljónum króna fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi. Allur þessi kostnaður mun auðvitað leita út í fasteignaverðið og leiguverðið.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. febrúar 2025.