Ríkisendurskoðun sendi frá sér tilkynningu í gær. Ekki er hægt að skilja hana á annan veg en að stofnunni finnist heldur lítið fara fyrir umfjöllun um meistaraverk hennar í tengslum við söluna á ríkisbankanum Íslandsbanka.

Ástæðan er auðvitað einföld. En hún virðist þó flækjast mjög fyrir stofnuninni. Því er Týr reiðubúinn að aðstoða.

Það voru lögbrot framin innan Íslandsbanka, sem og brot á reglum bankans sjálfs. Vissulega voru þau ekki alvarleg – en engu að síður brot. Þetta finnst almenningi bæði áhugavert og ámælisvert.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem kom mörgum mánuðum of seint, var fátt markvert að finna. Þetta sjá allir skynsamir menn - sem og allur almenningur.

Týr gefur stofnunni sjálfri nú orðið um helstu niðurstöður skýrslu sinnar - sem birtist í samantekt til fjölmiðla í júní í fyrra:

  1. Athugun Ríkisendurskoðunar hefur leitt í ljós að standa hefði þurft betur að undirbúningi og framkvæmd sölunnar
  2. Meginmarkmið sölunnar og viðmið varðandi framkvæmd voru á reiki
  3. Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála- og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins
  4. Bankasýsla ríkisins var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu
  5. Skýr merki eru um að endanlegt söluverð hafi fyrst og fremst ráðist af eftirspurn erlendra fjárfesta
  6. Ekkert í kynningargögnum Bankasýslunnar eða fjármála- og efnahagsráðuneytis í aðdraganda sölunnar gaf til kynna að aðkoma erlendra fjárfesta að kaupunum myndi hafa slíkt vægi við ákvörðun um endanlegt söluverð
  7. Greining Ríkisendurskoðunar á stöðu tilboðabókar við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð sýnir að heildareftirspurn var umtalsverð við hærra verð en 117 kr. á hlut

Þessi atriði eru óskaplega ómerkileg – satt best að segja. Sérstaklega þegar þau eru borin saman við lögbrotin í Íslandsbanka.

Eitt þeirra, liður 4, er reyndar algjörlega fráleitt og bendir til þess að þeir sem skrifuðu skýrsluna séu algjörir viðvaningar.

Um utanaðkomandi ráðgjöf segir í skýrslunni sjálfri:

Þrátt fyrir reynslu og þekkingu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar á sviði umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum bjó stofnunin ekki yfir reynslu af tilboðsfyrirkomulagi í aðdraganda sölunnar. Stofnunin var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.

Er ríkisendurskoðandi, sem er reyndar ekki endurskoðandi heldur stjórnmálafræðingur, sem hefur m.a. það hlutverk að ríkið fari vel með annarra manna peninga – fjármuni skattgreiðenda – virkilega að leggja til að það hafi verið sérfræðingur í sölu á hlutabréfum með tilboðsfyrirkomulagi í starfi hjá Bankasýslunni síðustu ár.

Frekar en að leita utanaðkomandi ráðgjafar, líkt og gert var. Líklega eru slíkir menn teljandi á einum fingri í landinu.

Er þetta eitthvað grín hjá ríkisskoðanda?

Staðreyndin er sú að þótt valin hafi verið röng leið af stjórnmálamönnum við sölu á Íslandsbanka, því allir hefðu átt að eiga kost á að kaupa – líka þeir sem aldrei ætluðu að kaupa, reyndist salan gríðarlega hagstæð fyrir ríkissjóð.

Verðið á bankanum hefur lækkað, meðal annars vegna klúðurs bankans sjálfs við söluna, og verðbólgan hefur verið nærri 10%.

Í viðtali við Vísi í morgun sagði ríkisskoðandi:

„Í skýrslu okkar er fjallað um það að þessa hluti hefði þurft að gera betur. Með því hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir að minnsta kosti mörg þeirra brota sem við nú sitjum uppi með.“

Hvers vegna nefnir stjórnmálafræðingurinn ekki þessi atriði. Kannski vegna þess að þau eru fá, ef nokkur?

Nú hlýtur alþingi að krefja ríkisskoðanda um þessi atriði. Það verður mikil sneypuför.

Ríkisskoðandi er einhver allra slakasti embættismaður sem Ísland hefur átt, og er úrvalið þó nokkurt.

Enda situr hann þar aðeins af einni ástæðu. Hann er nefnilega framsóknarmaður.

Týr er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu og á vb.is.