Erna Mist listmálari hefur skotist fram á ritvöllinn með heimspekilegum greinaskrifum í Morgunblaðið, sem fallið hafa í góðan jarðveg hjá lesendum.

Það sem skilur Ernu frá mörgum öðrum pistlahöfundum er að henni tekst að koma hugsunum sínum á framfæri í knöppum stíl. Í pistli sínum í gær tekst hún á við að útskýra hvað það þýði í raun að orðaforði fari minnkandi, lestrarkunnátta dvínandi og skrifkunnátta hverfandi.

Niðurstaðan er einkar áhugavert en Erna skrifar: „Ólíkt stéttaskiptingum fortíðar mun stéttaskipting framtíðar hvorki markast við efnahagslegt né menningarlegt auðmagn, heldur málfærni. Í heimi þar sem leitarvélar gengisfella þekkingu og spjallmenni sjá um að útskýra hlutina fyrir okkur verður enginn eiginleiki jafn verðmætur og eiginleikinn til að skilgreina sinn veruleika sjálfur.”

Sé eitthvað að marka lækin á Facebook þá á Erna sér stóran og breiðan aðdáendahóp. Nefna má Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Egil Helgason fjölmiðlamann, Þorgrím Þráinsson rithöfund, Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur sjónvarpskonu, Eddu Björgvinsdóttur leikkonu, Ásgeir Brynjar Torfason, verkefnastjóra á menntavísindasviði HÍ og Herbert Guðmundsson tónlistarmann.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út miðvikudaginn 5. apríl 2023.