Frá árinu 2009 hefur Portúgal verið með ívilnandi skattlagningu erlendra lífeyristekna hjá lífeyrisþegum sem hafa flutt búferlum til Portúgal.

Lífeyrisþegar sem hafa ekki búið í Portúgal í fimm ár fyrir flutning þangað hafa getað sótt um aðild að NHR kerfinu í Portúgal (e. Non-Habitual Residence tax regime). Þeir sem falla undir NHR kerfið hafa greitt 10% skatt af erlendum lífeyrisgreiðslum og fram til ársins 2019 greiddu þeir engan skatt. Hægt var að vera í NHR kerfinu í að hámarki 10 ár.

Flestir tvísköttunarsamningar kveða á um að skattlagning lífeyrisgreiðslna, annarra en lífeyrisgreiðslna vegna starfa fyrir hið opinbera, skuli einungis skattleggja í því landi sem lífeyrisþeginn er skattalega heimilisfastur. Lífeyrisþegar heimilisfastir í Portúgal sem hafa fengið lífeyri frá löndum sem Portúgal hefur gert tvísköttunarsamninga við hafa þannig getað sótt um undanþágu frá skattlagningu lífeyrisgreiðslna í heimalandi sínu og greitt 10% skatt af lífeyrisgreiðslunum í Portúgal.

Íslenskir lífeyrisþegar hafa þannig getað tekið út bæði skyldusparnað og séreignasparnað og einungis greitt 10% skattgreiðslu í Portúgal.

Portúgalar breyta skattlagningu

Nú nýverið var lagt fram frumvarp á portúgalska þinginu þar sem lagt var til að að lokað verði fyrir NHR kerfið frá og með 1. janúar 2024. Þeir einstaklingar sem sótt hafa um aðgang að NHR kerfinu fyrir 31. desember 2023 og fengið umsóknina afgreidda fyrir 31. mars 2024 munu þó geta haldið áfram að vera í NHR kerfinu þar til 10 ára dvalartíma í Portúgal er náð.

Í sjónvarpsviðtali við portúgalska forsætisráðherrann í byrjun október 2023 kom fram að ástæða þess að lagt er til að lokað verði fyrir NHR kerfið sé m.a. sú að kerfið hafi valdið mikilli hækkun á húsnæðisverði og leigu húsnæðis í Portúgal sökum mikillar ásóknar erlendra lífeyrisþega í húsnæði í Portúgal.

Á árinu 2019 fengu rúmlega fjörtíu lífeyrisþegar sem búsettir voru í Portúgal greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum.

Talið er að yfir 10.000 lífeyrisþegar séu í NHR kerfinu í Portúgal og lífeyrisgreiðslur sem hafa farið í gegnum NHR kerfið hafi á árinu 2021 numið 1,21 milljarði evra og hafi hækkað frá 770 milljónum evra árið 2019.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra Íslands frá mars 2020 kemur fram að á árinu 2019 fengu rúmlega fjörtíu lífeyrisþegar sem búsettir voru í Portúgal greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum sem sundurliðuðust í 86 m.kr. úr sameign og 63 m.kr. úr séreign.

Önnur lönd sem bjóða ívilnandi skattlagningu lífeyrisgreiðslna

Fleiri lönd en Portúgal sem bjóða ívilnandi skattlagningu erlendra lífeyrisgreiðslna. Sem dæmi má nefna að á Ítalíu eru í gildi ívilnandi reglur vegna skattlagningu lífeyrisgreiðslna en þar er ákvæði um búsetu í ákveðnum sveitarfélögum í suður-Ítalíu. Skatthlutfall erlendra lífeyrisgreiðslna er 7% á Ítalíu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. búsetu á ákveðnum svæðum.

Á Kýpur eru einnig ívilnandi ákvæði varðandi skattlagningu erlendra lífeyrisgreiðslna. Hægt er að óska eftir að erlendar lífeyrisgreiðslur umfram 3.420 evrur séu skattlagðar með 5% skatthlutfalli. Erlendar lífeyrisgreiðslur undir 3.420 evrum eru skattfrjálsar.

Ágúst Karl Guðmundsson er lögmaður og eigandi hjá KPMG Law og Guðrún Björg Bragadóttir er sérfræðingur hjá KPMG Law.