Erindi Samfylkingarinnar við kjósendur hefur sjaldan verið brýnna en um þessar mundir. Sést það meðal annars á framgöngu þeirra Oddnýjar Harðardóttur þingmanns og Guðmundar Árna Stefánssonar, varaformanns flokksins og bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, að undanförnu. Þannig birti Oddný sömu greinina með vikufresti á Vísi annars vegar og í Morgunblaðinu. Fyrirsagnirnar eru þó ekki þær sömu: „Seðlabanki Íslands“ og „Seðlabankinn“. Sennilega hefur Oddný talið að lesendur fatti ekki að um sömu grein sé að ræða.

Hrafnarnir heyra að þessum greinarskrifum sé ætlað að ganga í augu þeirra innanbúðarmanna sem vinna að því að grafa undan stöðu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Væntanlega fyrir að vera einn fárra Íslendinga sem tala af viti og alvöru um efnahagsmál.

Guðmundur Árni ruddist hins vegar fram á ritvöllinn í vikunni og kom hvorki meira né minna með lausnina á kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins: Bara setja á leiguþak og málið er dautt. Miðað við þessa framgöngu eru hrafnarnir ekki hissa að Samfylkingin mælist nú með mest fylgi í skoðanakönnunum um þessar mundir.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.