Það hefur tekist ágætlega að efla umhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja á Íslandi. Án þess að rekja þá þróun má fullyrða að fjárfestar eru í dag viljugri en áður til að fjárfesta í frumkvöðlastarfi og hraðlar, keppnir og klasar hafa dregið til sín og mótað vaxandi hóp frumkvöðla. Á sama tíma hefur ekki farið jafn mikið fyrir áherslum á frumkvöðlamenntun (e. entrepreneurship education) og möguleikunum og áhrifunum sem í slíkri menntun felast. Hugsanlega er þetta vegna þess að enn eimir af lífseigri staðalímynd um frumkvöðla, sem hverfist jafnan um einstaklinginn, hálfguðlega hetju sem í krafti einhvers konar náðargáfu og einstakra hæfileika, brýtur norm og riðlar sólarganginum einn síns liðs. Fyrir slíkt ofurmenni eru menntun og menntastofnanir í besta falli tímasóun.
Staðalímynd hittir raunveruleikann
Það á við þessa staðalímynd, eins og flestar aðrar, að hún hrynur um leið og hún kemst í snertingu við raunveruleikann. Frumkvöðlar eru sérstaklega margbreytilegur hópur einstaklinga, sem rannsakendum hefur gengið erfiðlega að aðgreina frá öðrum hópum samfélagsins á grundvelli persónulegra eiginleika. Hins vegar hefur frumkvöðlastarf (e. entrepreneurship) ákveðin einkenni, studd með rökum og rannsóknum. Eitt er til að mynda að hægt er að benda á verkefni og ferla sem endurtaka sig og gera það að verkum að tiltekin þekking, hæfni og hugarfar kemur sér vel fyrir frumkvöðla. Annað er að menntun getur haft jákvæð áhrif á næmni frumkvöðla til að koma auga á viðskiptatækifæri, hæfni til að nýta þau og aukið líkur á að frumkvöðlastarf skapi verðmæti. Þriðja er að frumkvöðlar eiga mikið undir samvinnu og samstarfi og það lýsir frumkvöðlastarfi iðulega betur en einstaklingsframtak. Loks má fullyrða að flestir ættu að geta tileinkað sér aðferðir og hugarfar frumkvöðla.
Til viðbótar við einfalda staðalímynd má færa rök fyrir því að þröngsýni á það hvað felst í frumkvöðlastarfi, ásamt mögulegri verðmætasköpun, komi í veg fyrir að fólk átti sig á verðmætum frumkvöðlamenntunar. Frumkvöðlastarf er til að mynda ekki bundið við fjárhagslega verðmætasköpun. Verðmætasköpunin getur líka verið samfélagsleg, menningarleg eða umhverfileg. Þetta endurspeglast í helstu skilgreiningum á frumkvöðlastarfi, sem fela í sér áherslu á frumkvöðlastarf sem skapandi ferli og breiða verðmætasköpun. Frumkvöðlastarf snýst þannig um að „efla hugvitsemi mannsandans og bæta mannkynið“ (Timmons) og frumkvöðlastarf er „hugarfar – ákveðin leið til að hugsa og framkvæma. Það snýst um að ímynda sér nýjar leiðir til að leysa vandamál og skapa verðmæti“ (Bachenheimer).
Erum við öll frumkvöðlar?
Frumkvöðlahæfni á sér þannig breiða skírskotun og erindi inn í hvaða menntun sem er. Þannig er fyrsta skrefið oft að sýna nemendum í frumkvöðlafræðum að margt, sem þeir hafa þegar gert, kallast á við frumkvöðlastarf. Flestir til að mynda einhverja reynslu úr persónulegu lífi, námi eða vinnu þar sem þeir hafa hrint af stað breytingum frammi fyrir áskorun eða tækifæri, aðhafst þrátt fyrir óvissu, hagnýtt þekkingu, tengslanet og önnur bjargráð á hugvitsamlegan hátt og fetað sig í átt að markmiði, sem jafnvel hefur tekið breytingum í ferlinu. Með nokkurri einföldun má segja að þetta sé það ferli sem frumkvöðlar og frumkvöðlamenntun fást við.
Menntun fyrir framtíð – ekki fortíð
Á tímum breytinga og sviptinga í tækni, stjórnmálum, umhverfismálum og á lýðfræðilegum þáttum, er áríðandi að menntun auki hæfi fólks til að færa sér breytingar í nyt, taka frumkvæði og aðhafast í óvissu. Það er ekki fullnægjandi að mennta fyrir hlutverk og störf gærdagsins. Eins og brimbrettakappar þurfa núverandi og komandi kynslóðir bæði að geta riðið ölduna og synt í briminu. Fyrir þann sem getur hvoru tveggja er ólgandi brim breytinga, leikvöllur fullur af spennandi tækifærum. Fyrir aðra verður brimið ógnvekjandi og hættulegt. Frumkvöðlamenntun er þannig ekki eingöngu fyrir þá sem vilja stofna fyrirtæki eða koma vöru á markað. Hún er lykilhæfni, sem þjálfar seiglu, sköpun, frumkvæði, gagnrýna hugsun og lausnarmiðaða nálgun. Frumkvöðlamenntun er fyrir þá sem vilja geta nýtt tækifærin í breytingunum, notið brimsins, og fyrir samfélag sem vill byggja upp velferð og vöxt.
Höfundur er rannsakandi og kennari frumkvöðlafræða við Háskólann í Reykjavík.