Hrafnarnir rákust á dögunum á skemmtilega frétt á vef Eyjafrétta þar sem fram kom að fjöldi fyrirspurna til Vestmannaeyjabæjar er varðar hin ýmsu mál sveitarfélagsins og félags í eigu þess hafi verið 348 á síðasta ári.

Það merkilega er að allar fyrirspurnirnar bárust frá einum og sama einstaklingnum. Jafngildir sá tími sem fór í að svara fyrirspurnum einstaklingsins um hálfu stöðugildi allt árið um kring. Viðkomandi einstaklingur tók sér einungis 17 frídaga í fyrra ef gengið er út frá því að ein fyrirspurn sé gott dagsverk.

Þessi atorkusami samfélagsrýnir hefur áður ratað í fréttirnar því í febrúar 2021 greindi Eyjar.net frá því að einstaklingurinn hafi sent á sjöunda hundrað fyrirspurna á bæjarfélagið frá því í byrjun árs 2019.

Í huga Hrafnanna er aðeins eitt sem getur útskýrt þetta fyrirspurnaflóð í Vestmannaeyjum. Það er að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafi flutt búferlum til Vestmannaeyja. Annað hvort það eða hann Ari litli, sem söngkonan Ingibjörg Þorbergs gerði ódauðlegan á sínum tíma, hafi ílengst í Eyjum eftir Tommamótið snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Eins og frægt er orðið virðist Píratinn aldrei hafa heyrt minnst á leitarvél Google og því lagt í vana sinn að leggja fram misgáfulegar fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi, t.d. um hvað klukkan sé, hvað höfuðborg Íslands heitir og hversu margir Íslendingar voru bitnir af hundum árið 2019.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.