Það snjóaði töluvert á höfuðborgarsvæðinu um helgina - og Reykjavíkurborg varð ófær.

Það er gömul og ný frétt því þetta hefur gerst reglulega síðustu vetur.

Mbl.is bar í kvöld saman fjölda snjómoksturstækja að störfum í borginni og nágrannasveitarfélögunum um helgina.

Þar kemur í ljós að Reykjavíkurborg var með sama fjölda tækja í mokstri eins og Kópavogur og Hafnarfjörður, hvort um sig. Þessi tvö sveitarfélög eru mun minni en Reykjavík og því með mun styttra gatnakerfi.

Í gærkvöldi komu hins vegar stórkostlegar fréttir.

Alexandra Briem formaður umhverfisráðs sagði á Ríkisútvarpinu að nú væri borgin að skoða að setja á laggirnar stýrihóp um endurskoðun þjónustuhandbókar um vetrarþjónustu.

Ekki er þó útséð með það hvort hægt verður að kalla stýrihópinn saman fyrir vetrarlok, en allt kapp verður þó lagt á að setja þetta á fimm ára áætlun, samkvæmt öruggum heimildum Hrafnanna.

Einnig er nú einnig til skoðunar í Ráðhúsinu að setja stofn stýrihóp um að skoða kosti þess, og galla, að halda dag reykvískrar ófærðar hátíðlegan.

Það verður hins vegar alls ekki skoðað, samkvæmt sömu öruggu heimildunum, að hætta að kasta Alöxöndru Briem fyrir lestina, síðar borgarlínuna, í erfiðum málum í Reykjavíkurborg.

Dagur Eggertsson, borgarstjóri, og Einar Þorsteinsson, verðandi aftur sjónvarpsmaður hjá ríkinu, eru og verða áfram í felum í öllum óþægilegum og erfiðum málum.