Í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins fyrir viku sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir frétt af því að ríki heims væru langt frá loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins.
Af því tilefni var langt viðtal í fréttatímanum við Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráð sem taldi þetta allt saman hið versta mál.
Halldór ræddi um þær hörmungar sem nú gengju yfir mankynið vegna þess að loftlagsmarkmiðunum hefði ekki verið náð. Halldór rakti meðal annars að flóðin í Pakistan í ágúst væru skýrt dæmi um afleiðingar þess. Tíminn væri naumur og eina færa leiðin að mati Halldórs væri stökkbreytingu eins og hann orðaði á grundvallarkerfum mannlegs samfélags og meðal annars að endurhugsa ætti allt fjármálakerfi heimsins. Að sögn Halldórs er þetta ekki tiltölulega lítið mál og nefndi að seðlabankar myndu gegna mikilvægu hlutverki í þessu öllu saman.
Látum vera að tiltekin svæði í Pakistan eru mjög útsett fyrir flóðum á Monsún-tímanum og hafa verið það frá örófi i. Látum líka vera hvernig hann útskýrði að stökkbreyta þyrfti lífi manna og endurhugsa fjármálakerfið. Látum jafnvel vera að Jóhanna Vigdís jánkaði öllu sem maðurinn sagði og efaði aldrei neitt. En það kom aldrei skýring á því hvað Loftslagsráð væri. Áttuðu áhorfendur sig á því að þetta væri ekki opinbert stjórnvald eða akademískt apparat?
Loftslagsráð starfar á grundvelli laga um loftslagsmál og er skipað fulltrúum sveitarfélaga, launþega, neytenda, viðskipta- og atvinnulífs, bænda, háskólasamfélagsins, umhverfisverndarsamtaka og ungs fólks. Fjölmiðlarýnir veltir fyrir sér hvort einhverjir aðrir lobbíistar fengju að mæta beint í fréttaríma RÚV og masa svona eins og allt væri það óyggjandi staðreyndir?
***
Í sama fréttatíma var flutt frétt Arnars Björnssonar frá umræðu á Alþingi um Íran (þar sem ekki var leitað álits Höllu Gunnarsdóttur) þar sem sagt var að 13 þingmenn allra flokka á Alþingi nema Miðflokks hefðu lýst yfir stuðningi við persneskar konur. Þetta var svo villandi að lá við falsi, en báðir þingmenn Miðflokks lágu heima í pest eins og fram kom í mætingarlista þingsins. Sigmundur Davíð vísaði svo til fréttaflutningsins á samfélagsmiðlum og lýsti yfir að þingmenn flokksins hefðu stutt málið hefði þeir átt heimagengt.
Fréttinni lauk á furðulegum nótum Björns Levís um að á Alþingi væri hann beittur broti af sama stjórnlyndi og klerkastjórnin í Íran framfylgdi með morðum. Það var ekki brotið frekar til mergjar.
***
Róbert Spanó lét af störfum hjá Mannréttindadómstól Evrópu á mánudaginn. Af því tilefni birtist drottningarviðtal við hann í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar segir Róbert frá störfum sínum og framtíðaráformum en þar kemur meðal annars fram að hann útiloki ekki þátttöku í stjórnmálum þegar fram í sækir.
Hvað um það. Viðtalið er fyrst og fremst áhugavert fyrir það sem ekki er rætt um. Þannig segir Róbert að fjölskylda hans hafi orðið fyrir áreiti vegna Landsréttarmálsins svokallaða og að honum hafi borist „tölvupóstar frá þekktum einstaklingum með ýmsum ásökunum“. Blaðamaður gengur hins vegar ekki eftir frekari upplýsingum um þetta og það bendir til að viðtalið hafi farið fram alfarið á forsendum Róberts.
En merkilegast er að ekkert er fjallað um umdeilda heimsókn Róberts sem forseta Mannréttindadómstólsins til Tyrklands haustið 2020 í boði dómsmálaráðuneytis landsins. Hann hitti forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan, sem bauð honum í forsetahöllina í Ankara. Hann heimsótti svo háskólann í Instabúl, þar sem hann tók við heiðursnafnbót við skólann.
Róbert var gagnrýndur harðlega fyrir að hafa þekkst heimboð tyrkneskra stjórnvalda enda bíða um 60 þúsundir umsóknir frá Tyrklandi úrlausnar fyrir Mannréttindadómstólnum. Fjölmargir fræðimenn og sérfræðingar á sviði mannréttinda kölluðu eftir afsögn Róberts vegna heimsóknarinnar. Þannig skrifaði Dilek Kurban, sérfræðingur í lögum og mannréttindum, að Róbert hafi undirstrikað siðfræðilegan dómgreindarskort heldur hafi einnig skaðað orðspor og hlutlægni Mannréttindadómstólsins á þann veg að Tyrkir geta ekki lengur treyst því að dómstóllinn undir stjórn Róberts fjalli á sanngjarnan hátt um mál þeirra.
Í ítarlegri fréttaskýringu á vef Ríkisútvarpsins segir enn fremur:
“Þýski dómarinn Christoph Flügge, sem dæmdi meðal annars í málum Ratko Mladic og Radovan Karadzic úr Bosníustríðinu fyrir Stríðsglæpadómstólnum í Haag, er einnig harðorður. Hann segir ekki rétt af Róberti að taka við nafnbótinni.
„Þetta er ekki sæmandi fyrir forseta Mannréttindadómstólsins. Herra Spanó er æðsti fulltrúi dómstólsins og er heiðraður af ríki sem treður á mannréttindum. Það er mjög mikið áhyggjuefni,“ segir Flügge í viðtali við Süddeutsche Zeitung.
„Það er fjöldi tyrkneskra dómara sem sitja í fangelsi eða hafa orðið fyrir ofsóknum. Og svo er herra Spanó heiðraður af háskólanum í Istanbúl - fyrir hvað? Fyrir það sem hann gerði sem lagaprófessor á sínum tíma á Íslandi? Eða fyrir störf sín fyrir Mannréttindadómstólinn?“ spyr Flügge.”
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 27. október 2022.