Einhvern veginn rötuðu nokkrar Íslendingasögur inn á Kindle-inn hjá mér á sínum tíma og í leit að einhverju gömlu og góðu fyrir svefninn ákvað ég nýlega að endurnýja kynnin við Laxdæla sögu. Uppbygging sögunnar er vissulega ekki öll til þess fallin að halda beinlínis fyrir manni vöku í kvöldlestrinum en um leið og maður fattar hvaða ættfærslur þarf að meðtaka og hverjar ekki, stendur eftir ein helsta perla íslenskrar listsköpunar.
Í hinni nær 800 ára gömlu bók er fjallað um merkilega viðskiptaákvörðun. Sagt er frá Þorkatli trefli, sem á lönd að Hrappsstöðum. Jörðin hafði lagst í eyði enda var reimt á Hrappsstöðum og afturganga fyrri eiganda, Hrapps, gerði mönnum lífið leitt. Það var synd, því að landið var fagurt og gagnauðugt, skógi vaxið og miklar laxveiðar og selveiðar fylgdu. Kemur þá til sögunnar sá konungborni ambáttarsonur Ólafur Höskuldsson og býður Þorkatli trefli þrjár merkur silfurs fyrir jörðina. Var það „ekki jafnaðarkaup“ - sem sagt ekki ýkja há upphæð - en vegna óvissra framtíðarmöguleika afréð seljandinn þó að ganga að tilboðinu. „Var þessu kaupi slungið því að Þorkell trefill sá það að honum var betri ein kráka í hendi en tvær í skógi,“ segir um viðskiptin.
Að ein kráka í hendi sé betri en tvær í skógi eru svo sannindi sem hafa lifað með þjóðinni allar götur síðan. Að í ákveðnum tilvikum beri að innleysa fé sem sannarlega er innan seilingar, í stað þess að halda í tálsýn um betri ávöxt í óræðri framtíð.
ÁTVR
Ég minnist þess ekki að hafa í gegnum tíðina verið haldinn brennandi sannfæringu um nauðsyn breytinga á lögum um áfengisverslun á Íslandi, þótt ég hafi heldur alls ekki verið mótfallinn þeim. Sem stjórnmálamanni ber mér þó að mynda mér upplýsta skoðun.
Ég hlustaði fyrir nokkru á viðtal við Hermann Guðmundsson forstjóra og reynslumikinn rekstrarmann. Hann benti á það sem ég hef síðan talið vera lykilpunkt í málinu, að með tilkomu hinna nýju „netverslana“ með áfengi væri markaðsvirði Vínbúðarinnar óðum að hrynja. Með hverju árinu sem samkeppni við ríkisverslunina eykst, minnkar auðvitað sérstaða hennar og þar með lækkar verðmiðinn þar til ekkert stendur eftir nema fasteignir félagsins.
Þetta er umhugsunarefni. Með annarri hendi rígheldur ríkisvaldið í fyrirkomulag ÁTVR en með hinni leyfir það lausasölu annarra á víni og glutrar þar með niður sérstöðu einkasölunnar. Ef einhver lágmarksskynsemi réði för, ætti eigandi ÁTVR að bregðast hratt við þeim breyttu aðstæðum sem hann sjálfur hefur skapað og koma rekstrinum í verð áður en það verður of seint. Það er ekki síður áríðandi í ljósi þungrar skuldastöðu eigandans, sem veitti alls ekki af eins og þremur merkum silfurs fyrir þá kráku sem enn er í hendi. Hvers konar eigandi sér þetta ekki?
Bankar
Ég minnist þess ekki að hafa í gegnum tíðina verið haldinn brennandi sannfæringu um nauðsyn breytinga á eignarhaldi ríkisvaldsins í fjármálakerfinu, þótt ég hafi heldur alls ekki verið mótfallinn sölu banka. Sem stjórnmálamanni ber mér þó að mynda mér upplýsta skoðun.
Ég hlustaði á dögunum á Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, sem ræddi á ráðstefnu um óljósa framtíð bankaþjónustu. Hefðbundnir bankar eiga í vaxandi samkeppni við nýsköpunarfyrirtæki sem vilja nú ryðja sér til rúms í fjármálaþjónustu, eins og samfélagsmiðla. Eigandi X hefur til dæmis boðað að hann vilji bjóða þar upp á bankaþjónustu, allt frá millifærslum og greiðslumiðlum til lánastarfsemi. Kínverjar eru komnir lengra í þessari þróun með WeChat. Benedikt vísaði til bandarískrar viðhörfskönnunar á meðal ungs fólks. Þar kváðust 53% ungs fólks telja hefðbundna banka „ekki hafa neitt sérstakt fram að færa“ og 68% þessara ungu viðskiptavina töldu að þeir myndu nálgast fjármuni sína með allt öðrum hætti eftir nokkur ár. „Þetta er vísbending um að nú fari í hönd einhver svakalegasta breyting á viðskiptamódeli banka sem um getur,“ sagði Benedikt.
Þetta er umhugsunarefni. Framhald sölu Íslandsbanka hefur verið töluvert til umræðu, jafnvel sala Landsbankans í þokkabót, og sitt sýnist hverjum. Þar sem ég sat og hlustaði á bankastjórann lýsa hinum risavöxnu áskorunum í bankarekstri á næstu áratugum varðist ég ekki þeirri hugsun, að mögulega væri áðurnefndur eigandi ÁTVR ekki endilega best til þess fallinn að fara með eignarhald á bönkum í ólgusjónum fram undan. Að mögulega væri ekki áhættulaust að ætla gömlum ríkisfyrirtækjum að keppa við öflugustu tæknifyrirtæki heims, sem nú keppast við að bjóða upp á margfalt hagkvæmari lausnir en íslensk forritunarteymi geta nokkru sinni reynt að jafna. Að mögulega væri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið að fá krákuna beint í hönd núna, fleiri hundruð milljarða í söluandvirði, í stað þess að reyna af veikum mætti að halda velli á hefðbundnum bankamarkaði.
Af lýsingum Benedikts að dæma verður á næstu árum langt í frá sjálfsagt að gera ráð fyrir sömu reglulegu arðsemi bankanna og verið hefur. Eigendur þurfa að vera í hæsta máta viðbragðsfljótir til þess að sigrast á glænýjum keppinautum. Versta niðurstaðan væri að ríkisbankanna biðu sömu örlög og ÁTVR nú um stundir, nema á allt öðrum skala og með mun alvarlegra fjárhagstjóni fyrir okkur núverandi eigendur.
Skynsemi
Maður þarf ekki að vera haldinn kreddukenndri sannfæringu um einkarekstur eða opinberan til þess að nálgast þessi mál af skynsemi. Að betri sé ein kráka í hendi en tvær í skógi er frekar eðlisfræðileg fullyrðing en pólitísk. Í áfengismálunum snýst spurningin ekki lengur um einkasölu eða ekki, enda virðast þær flóðgáttir hreinlega brostnar. Það er því af engri bókstafstrú sem ég fullyrði að eina skynsemin sé að grípa krákuna og selja ÁTVR áður en það er um seinan. Svo tel ég óhætt að velta því upp hvort það sama eigi einnig við um bankastarfsemi á tæknilegum umbrotatímum. Þar fæ ég hvort eð er ekki séð að í krafti opinbers eignarhalds sé Landsbankanum sérstaklega beitt í þágu almennings frekar en aðrir bankar.
Þrátt fyrir augljós landgæði og möguleika eignarinnar, hafði óvissa ríkt um Hrappsstaði áður en Þorkell trefill ákvað að selja staðinn í hendur Ólafs Höskuldssonar. Gömul afturganga sveif yfir vötnum og kom það því í hlut nýs og metnaðarfulls eiganda að reka út illa anda. Hann réðst beint í verkið þegar hann tók við staðnum, gróf Hrapp upp úr sinni draugadys, lét brenna á báli og flytja öskuna á sjó út. „Héðan frá verður engum manni mein að afturgöngu Hrapps,“ segir í þessari gömlu bók. Þetta var bara spurning um að taka ákvarðanir.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins.