Týr sér að Arnar Þór Jónsson lögmaður og fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins segist vera að íhuga að stofna stjórnmálaflokk.
Flokkurinn fær hugsanlega nafnið Auðlindaflokkurinn að sögn Arnars og vafalaust sækir hann innblástur til Sameinaða auðlindaflokksins í Papúa Nýju-Gíneu, en það er önnur saga.
Arnar sagði í samtali við fjölmiðla í síðustu viku að ástæðan fyrir mögulegri stofnun nýs flokks sé siðferðilegt gjaldþrot heimsbyggðarinnar og hættan á að þriðja heimsstyrjöldin brjótist út.
Flokkar hafa verið stofnaðir af minna tilefni. Eigi að síður sér Týr ekki hvernig stofnun smáflokks á hægrivæng stjórnmálanna muni afstýra ragnarökum eða vinda ofan af siðferðilegu gjaldþroti mannkyns. Í besta falli mun stofnun slíks flokks styrkja stöðu vinstriflokkanna í íslenskum stjórnmálum, án þess að lítið skuli gert úr skaðvænleika þess.
Fjölmargar ástæður geta verið fyrir því að stofna nýjan stjórnmálaflokk á Íslandi. Helstu ástæðurnar eru efnahagslegar og stýrast af því fráleita fyrirkomulagi sem Alþingi hefur sett um starf stjórnmálaflokka og fjármögnun þeirra.
Sósíalistaflokkurinn náði ekki manni á þing eftir síðustu þingkosningar. En þeir fengu 4,1% atkvæða á landsvísu í kosningunum og þar með 130 milljóna króna greiðslu frá ríkinu eða um 30 milljónir á ári, vegna reglna um ríkisstyrki við stjórnmálaflokka. Það er nokkuð góð arðsemi eiginfjár miðað við að kosningabaráttan kostaði innan við 5 milljónir króna. Allar götur síðan hefur Gunnar Smári Egilsson verið í beinni útsendingu á öldum ljósvakans í boði skattgreiðenda að ræða um arðrán öreiganna, afætur þjóðfélagsins og stéttabaráttuna við Sigurjón bróður sinn á Samstöðinni.
En fjörið byrjar fyrst ef flokkar ná að koma frambjóðendum á þing. Píratar og Flokkur fólksins eru nánast alfarið reknir fyrir skattfé og fá flokkarnir hvor um sig um sjötíu milljónir króna á ári frá hinu opinbera. Þessir flokkar fengu um átta prósent hvor í síðustu þingkosningum. Ekki nóg með það þá borgar Alþingi allan starfsmannakostnað þingflokka. Auk þess geta flokkar sem komast á þing launað vinum og vandamönnum með því að skipa þá í stjórn ríkisfyrirtækja eins og Póstsins.
Það er því eftir töluverðu að slægjast og margvíslegir efnahagslegir hvatar til að stofna stjórnmálaflokk kringum áhugamál sín, hver sem þau kunna að vera. Væntanlega er lítill sem enginn vilji meðal þeirra sem njóta að breyta þessu fráleita fyrirkomulagi.
Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 31. júlí 2024.