Hrafnarnir fylgjast náið með atvinnuauglýsingum enda í þrotlausri leit að draumastarfinu sem þarf helst að vera hjá ríkinu til að njóta betri kjara og styttri vinnutíma. Leitinni virðist loks lokið því í morgun rákust hrafnarnir á áhugaverða atvinnuauglýsingu frá Sveinbirni Indriðasyni og vinum hans hjá ríkisfyrirtækinu Isavia.
Ríkisfyrirtækið er í leit að sjálfstæðum og skipulögðum einstaklingi í starf umsjónarmanns mannþáttafræða. „Viðkomandi ber ábyrgð stefnu, þjálfun, kennslu- og leiðbeinandi efnis í mannþáttafræðum og meta mannlega þætti við rannsókn atvika,“ segir í auglýsingunni og jafnframt: „Við leitum eftir einstakling sem tekur þátt í því að skapa góða liðsheild, stuðla að uppbyggjandi menningu og tryggja heiðarleg og góð samskipti.“
Helstu verkefni og ábyrgð einstaklingsins lánsama sem ráðinn verður í starfið er að hafa umsjón með fræðslu og þjálfun í mannþáttafræðum, þ.m.t. streitu og þreytu. Starfsmenn Isavia þurfa ekki örvænta því viðkomandi hefur einnig umsjón með úrvinnslu streitu og þreytu tilfella. Kennsla, m.a. í mannþáttafræðum og önnur tilfallandi verkefni munu einnig vera innan verksviðs umsjónarmannsins.
Engin leið er að átta sig á um hvað starfið raunverulega snýst af lestri atvinnuauglýsingarinnar. Hrafnarnir eru þó spenntir fyrir starfinu, enda hljómar það eins og þægileg innivinna á launum sem eflaust eru vel yfir meðaltali.
Hvort Táningafræðari Tvíhöfðabræðranna Jóns Gnarr og Sigurjóns Kjartanssonar sé fyrirmynd ríkisfyrirtækisins ætla hrafnarnir ekki fjölyrða um, en setja aftur á móti spurningarmerki við það hve óþreytandi ríkisfyrirtæki, stofnanir og ráðuneyti eru í því að ráða fólk til tilgangslausra starfa.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.