Fátt er gleðilegt við niðursveiflu ferðaþjónustunnar hér á landi enda um að ræða eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Áhrifa þessa er að gæta víða og er vonbrigðauppgjör Icelandair á öðrum ársfjórðungi ein birtingarmynd niðursveiflunnar.
Þó hljóta verkalýðsforingjar á borð við Finnbjörn Hermannsson, forseta ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, að fagna vandræðagangi ferðaþjónustunnar. Eins og margir muna héldu Finnbjörn og Ragnar, ásamt fleiri verkalýðsleiðtogum, því fram að ferðaþjónustan væri helsti sökudólgur þrálátrar verðbólgu, en ekki óhóflegar launahækkanir síðustu ára.
Þar sem hægst hefur á ferðamannastraumnum hingað til lands ætla hrafnarnir að treysta greiningarhæfni verkalýðsleiðtoganna og reikna því nú með að verðbólgan muni nú taka að hjaðna hratt og örugglega á næstu mánuðum.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.