Í íslenskum rétti gildir sú regla að lögin binda alla, jafnt einstaklinga, lögaðila sem og ríkið sjálft. Af þrígreiningu ríkisvaldsins leiðir svo að það er þingsins að setja lögin en stjórnvalda að sjá um að framfylgja þeim. Þó er viðurkennt að þingið geti veitt stjórnvöldum heimild til að setja reglugerðir sem kveða nánar á um inntak lagaákvæða.

Því fer þó fjarri að við það hafi stjórnvöld frítt spil heldur verða reglugerðirnar að eiga sér stoð í lögum og mega ekki sprengja þann ramma sem lögin setja. Þegar kemur að álagningu skatta er ramminn svo enn þrengri en ella sökum ákvæða stjórnarskrárinnar um að skattamálum skuli skipað með lögum.

Flestum eru í fersku minni þau efnahagslegu óveðursský sem hrönnuðust upp þegar heimsfaraldurinn náði hér ströndum. Til að bregðast við þeim voru fest í lög ýmis úrræði og ívilnanir til að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin. Þar á meðal var tímabundin heimild til rekstraraðila til að fyrna tilteknar eignir hraðar en vant er. Að auki var komið á fót hvata til fjárfestinga í umhverfisvænum eignum, sem aflað yrði á árunum 2021-2025, sem fólst í að heimilt væri að reikna fyrningarálag ofan á stofnverð þeirra. Sú ívilnun var ekki einungis hugsuð til að koma til móts við áhrif heimsfaraldurs heldur sem hluti af markmiðum stjórnarsáttmálans um baráttu gegn loftlagsbreytingum og áherslu á grænar fjárfestingar. Fjármálaráðuneytinu var síðan falið að afmarka nánar í reglugerð hvaða eignir skyldu teljast umhverfisvænar.

Reglugerðin þrengri en lögin

Umrædd lagabreyting fór ekki fram hjá fyrirtækjum landsins og hefur fjöldi þeirra skipt út, sem undirbúið slíkar fjárfestingar, eldri eignum fyrir aðrar umhverfisvænni í samræmi við hvatann sem skapaður hafði verið. Það kom því nokkuð á óvart þegar fyrrgreind reglugerð var birt að hún undanskildi stóran hluta af eignum sem samkvæmt lögunum hefði mátt reikna fyrningarálag á og takmarkaði verulega lagaheimildina.

Samkvæmt lögunum er heimilt að reikna sérstakt fyrningarálag á stofnverð eigna sem aflað er á árunum 2021-2025. Samkvæmt reglugerðinni takmarkast fyrningarálagið aftur á móti við lausafé sem telst til fyrnanlegra eigna, það er skip, loftför, bifreiðar, vélar og tæki, og undanskilur þannig húsnæði, gróðurhús, ræktun á bújörðum, borholur, raflínur og önnur mannvirki. Það gera lögin aftur á móti ekki.

Þetta er ekki eina dæmið um að reglugerðin bæti við skilyrðum umfram það sem lögin gera. Í lögunum er kveðið á um að ekki sé heimilt að reikna fyrningarálag á stofnverð eignar ef öflun eignar er tengd skyldu eða kröfu sem skattaðila ber að uppfylla í rekstri sínum. Sambærilegt ákvæði er að finna í reglugerðinni en til viðbótar er bætt við setningu um að ekki kaupin tengist ekki starfsemi sem aðila ber að hafa lögum samkvæmt. Auðvelt er að sjá hvernig nefnd viðbót getur orðið til þess að samkeppnisaðilar innan sama geira muni hljóta mismunandi meðferð þegar kemur að álagningu tekjuskatts. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Hægt á grænni umbreytingu

Lagabreytingin og reglugerðin sýna að auki áhugaverða togstreitu milli stjórnvalda og þingsins. Milli umræðna á þinginu ganga frumvörp til nefnda og algengt er að í nefndum séu gerðar breytingar á texta þeirra. Í þessu tilfelli lagði efnahags- og viðskiptanefnd til að breyta frumvarpinu. Til að mynda var tími fjárfestingahvatans lengdur um þrjú ár, gildissvið útvíkkað þannig að ákvæðin gripu einnig aðrar fyrnanlegar eignir en lausafé. Fyrrnefnt skilyrði um að fjárfesting leiddi ekki af lagaskyldu var felld út, m.a. eftir ábendingar umsagnaraðila um það grunnsjónarmið skattheimtu að jafnræði sé með skattgreiðendum og í íslenskri skattalöggjöf er almennt tryggt jafnræði á milli ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækja í sömu atvinnugreinum, ekki síst út frá almennum samkeppnissjónarmiðum. Ráðuneytið setur hins vegar reglugerð sem miðar við upphaflega frumvarpið en ekki endanlegu lögin sem samþykkt voru.

Engum hefur dulist sú mikla loftslagsvá sem við blasir ef ekki verður dregið úr ágangi mannsins á auðlindir Jarðar. Markmið og vilji löggjafans var til að nýta skattkerfið til að skapa sérstaka hvata til fjárfestinga í eignum sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda. Með því átti að styðja við græna umbreytingu, meðal annars til að ná loftlagsmarkmiðum og -skuldbindingum ríkisins. Ljóst er að umrædd reglugerð, ef hún sprengir ekki rammann sem henni var settur, er til þess fallin að draga úr þeim hvata sem í lögunum felst. Stjórnvöld eru hvött til að endurskoða reglugerðina þannig að hún rími betur við lögin sem hún er sprottin úr. Að öðrum kosti geta verið forsendur fyrir ýmis fyrirtæki að láta reyna á lögmæti réttarheimildarinnar.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 8. júní 2022.