Stjórn VR, með réttlætisriddarann Ragnar Þór Ingólfsson í fararbroddi, hyggst hætta viðskiptum við Íslandsbanka. Ekki leið á löngu frá því að greint var frá ákvörðuninni síðasta föstudag þar til aðrir réttlætisriddarar á borð við ASÍ og Neytendasamtökin fylktu liði á bakvið hershöfðingjann Ragnar Þór og tóku sömu ákvörðun.

Það kom Tý nákvæmlega ekkert á óvart, enda viðbúið að félögin myndu nýta Íslandsbankamálið til frekari dyggðaskreytinga.

Ólíkt stjórn VR tilkynnti stjórn ASÍ ákvörðun sína þó ekki með pompi og prakt heldur fréttist niður á fréttastofu Vísis að umrædd ákvörðun hefði verið tekin. Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, gaf þó ekki kost á viðtali við miðilinn til að rökstyðja ákvörðunina. Raunar heyrðist hvorki hósti né stuna frá ASÍ-liðum fyrr en á mánudagsmorgun er Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, annar varaforseti ASÍ, lét í sér heyra í Morgunblaðinu.

***

Hún sagði ákvörðun ASÍ algjörlega óháða ákvörðun VR. Ragnar Þór er fyrsti varaforseti ASÍ og því auðvitað fáránlegt að ætla að um samantekin ráð sé að ræða. Að popúlískum sið sparaði hún síðan ekki stóru orðin og sagði berum orðum það sem öllum mátti vera ljóst; að sama hvernig bankinn hefði brugðist við því sem fram kom í sátt hans við Fjármálaeftirlit Seðlabankans, hefði það aldrei verið nógu gott fyrir samtökin.

Þá kvaðst hún mjög efins um að hægt væri að „bæta fyrir svona brot“ og að eigur almennings hefðu verið seldar „til valinna aðila á undirverði“. Brot bankans sé „varanlegur blettur“ á orðspor Íslandsbanka og hún efist hreinlega um að fyrir þau sé hægt að bæta!

***

Það verður að teljast afskaplega aumt af forsetanum að neita viðtölum og láta í staðinn aðila, sem augljóslega hefur ekki kynnt sér sáttina eða nokkuð annað sem tengist Íslandsbankamálinu, svara fyrir ákvörðun ASÍ. Að sama skapi situr eftir áleitin spurning um hvort hinir bankarnir vilji hreinlega fá aðila til sín í viðskipti, sem láta einungis popúlískar hvatir stjórna gjörðum sínum.

Þá styttist óðum í kjaraviðræður og hefði Týr haldið að tíma verkalýðsfélaganna væri betur varið í að undirbúa þær, fremur en að ákveða í hvaða banka það geymi fjármuni sína.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.