Einn af nýjum ráðherrum ríkisstjórnarinnar úr Flokki fólksins var fyrir nokkru spurður hvort hann myndi láta bókun 35 hafa áhrif á stjórnarsamstarfið, en hann hafði áður lýst megnri andstöðu við hana þar sem hún meðal annars færi gegn stjórnarskrá landsins. Hann sagði svo ekki vera, þar sem Flokkur fólksins hefði fengið 48 daga strandveiðar.
Þótt ráðherrann væri þarna kominn í andstöðu við sjálfan sig, skipti það ekki máli; 48 dagar til strandveiða væru tryggðir. Það liggur þá fyrir að sannfæring ráðherrans er föl fyrir nokkra fiska. En hversu marga fiska veit enginn. Og eitt er víst; ráðherrann hefur sjálfur ekki hugmynd um það!
Ýmislegt blasir þó við. Ef auka á heimildir til strandveiða þarf að taka þær frá öðrum. Árið 2009 fengu strandveiðimenn tæp 4 þúsund tonn af þorski. Í fyrra voru þau komin í 12 þúsund tonn. Á sama tíma hafa fyrirtæki, sjómenn og fiskverkafólk þurft að taka á sig miklar skerðingar, bótalaust.
Og nú á að taka af þessu sama fólki miklu meira, svo þingmenn, kennarar og leigubílstjórar í sumarfríi geti náð í sporslur. Jú og við bætast svo þeir sem hafa selt sig út úr sjávarútvegi fyrir hundruð milljóna króna, en róa enn til fiskjar yfir sumarmánuðina. Þeir þurfa víst líka sínar gjafir frá íslenska ríkinu.
Við óskynsamlega og ósanngjarna ákvörðun bætist að sumarfiskur er lélegri að gæðum en fiskur veiddur á öðrum tíma. Veiðarnar eru jafnframt óhagkvæmar og skila litlu í ríkissjóð. Meira að segja sitjandi fjármálaráðherra segir strandveiðar efnahagslega sóun. Því skal ekki mótmælt.
Ef verðmiðinn fyrir stuðning Flokks fólksins við ríkisstjórnina felst í óheftum strandveiðum er ljóst að sælan sú verður dýrkeypt landi og þjóð.