Það er engum blöðum um það a fletta að kennaraforystan ber ábyrgð á þeim mikla hnút sem kjaradeila hennar við Samband íslenskra sveitarfélaga er komin í.
Það blasir við mönnum og málleysingjum að nánast ómögulegt er að semja við stéttarfélag sem leggur ekki einu sinni fram kröfugerð og styðst við ákaflega óljósa kröfu um að kjör þeirra verði jöfnuð við einhverja sérfræðinga út í bæ.
Hrafnarnir telja óumflýjanlegt að Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og hans fólk kalli yfir nemendur og foreldra þeirra allsherjarverkfalli með tilheyrandi leiðindum og fórnarkostnaði. Allsherjarverkfalli á sama tíma og búið er að semja við alla aðra en hina óbilgjörnu kennara. Þetta ömurlega ástand leiðir hugann að því hversu dýrkeyptur Guðmundur Ingi Guðbrandsson var þjóðinni sem félagsmálaráðherra.
Fyrir tæpum tveimur árum stakk hann í skúffu frumvarpi sem búið var að samþykkja í ríkisstjórn, en því var ætlað að tryggja að ríkissáttasemjari gæti látið greiða atkvæði um miðlunartillögu í kjaradeilu. Það er nauðsynlegt að festa slíka heimild í lög en sambærilegar heimildir er að finna í nágrannalöndunum. Ljóst er að Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari væri búinn að nýta sér hana fyrir löngu væri hún til staðar. Athygli vekur að ekkert slíkt frumvarp er svo boðað í nýrri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. febrúar 2025.