Stærstan hluta lýðveldissögunnar hefur íslensk umræða snúist að stærstum hluta um dýrtíð og mismunandi vont veður. Engin breyting hefur orðið á þessum við upphaf ársins 2023.

Þannig var mikið fjallað í fjölmiðlum um grein sem Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur Bandalags háskólamanna, birti á vef samtakanna þann 12. janúar. Er meginniðurstaða greinar Vilhjálms að samanlagður rekstrarhagnaður fyrirtækja hækkaði um sextíu prósent á árunum 2018-2022. Samkvæmt greiningu BHM hækkaði á sama tíma hækkaði verðlag um tuttugu prósent. Hagnaðarhlutfall fyrirtækja hefur aldrei hækkað eins skarpt á milli ára og árin 2020 og 2021. Af þessu er dregin sú ályktun að fyrirtæki landsins hafi aukið meðalálagningu á heildarkostnað milli ára og velt kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Engan skal undra að fjölmiðlar geri sér mat úr þessu á meðan enn ríkir óvissa á vinnumarkaði og ekkert lát er á dýrtíðinni. Ríkisútvarpið sá ástæðu til þess að spyrja Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra út í niðurstöður BHM þann 13. janúar. Aðspurð sagði hún þessar niðurstöður gefa tilefni til þess að herða ríkisverðlagseftirlitið enn frekar.

En það er eitt og annað við úttekt BHM sem fjölmiðlar hefðu mátt gefa gaum. Í fyrsta lagi skoðar hún þróunina frá árinu 2018 til 2022. Það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið hjá sérfræðingum BHM að vera nú þegar komnir með rekstrarniðurstöðu nýliðins ár. Þeir vita þá eitthvað meira en flestir fjármálastjórar íslenskra fyrirtækja í janúarbyrjun. Í þessu samhengi er vert að geta þess að Hagar birtu afkomu þriðja ársfjórðungs sama dag og úttekt BHM kom út. Meginniðurstaða uppgjörsins er að framlegð sem hlutfall af veltu á þriðja fjórðungi dróst saman um 2,5 prósentustig milli ára vegna þróunar olíuverðs og minna framlegðarhlutfalls dagvöru. Gengi hlutabréfa Haga hefur lækkað um 3-4% frá því að uppgjörið birtist þar til þetta er skrifað.

Í öðru lagi sýnir uppgjör Haga að framlegð skiptir öllu máli í þessu samhengi. Ekki er minnst einu orði á framlegð í umfjöllun BHM um afkomu fyrirtækja á
árunum 2018-2022.

Í þriðja lagi verður ekki efast um að hagnaðarhlutfall fyrirtækja hafi aldrei hækkað meira milli ára eins og 2020 til 2021. En gefur þá ástæðu til þess álykta að þróunina megi rekja til óhóflegrar álagningar fyrirtækja? Heimsfaraldurinn setti mark sitt á þjóðarbúskapinn árið 2020 en þá dróst hagkerfið saman um tæplega 7%. Viðsnúningurinn árið eftir var nánast undursamlegur en þá óx hagkerfið um 4,4%.

Þarna voru ýmis öfl að verki. Aðgerðir stjórnvalda leiddu til þess að ferðaþjónustan fór ekki á hausinn og var því í stakk búin til þess að spretta úr spori þegar áhrif heimsfaraldursins tóku að réna. Samkomutakmarkanir breyttu neyslumynstri fólks sem hafði áhrif á afkomu verslunar. Vissulega vænkaðist afkoma verslunarinnar á þessum árum en langmestu máli skipti afkoma af fasteignaviðskiptum, aukning á útflutningsverðmæti áls og á tekjum af tækni- og hugverkaiðnaði.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 19. janúar 2023.