Heimurinn er að taka stakkaskiptum. Breyttir viðskiptahættir, gervigreindarkapphlaup og aukin áhersla á viðnámsþrótt marka kaflaskil í alþjóðavæðingu eins og við höfum þekkt hana undanfarna áratugi. Ísland þarf að aðlagast breyttum leikreglum í alþjóðaviðskiptum þar sem meira reynir á tvíhliða samskipti.

Nú þegar leikreglur í alþjóðaviðskiptum breytast þurfa stjórnvöld að bregðast rétt við, gæta hagsmuna Íslands, viðhalda eins greiðum aðgangi að helstu mörkuðum og kostur er og efla samkeppnishæfni iðnaðar og atvinnulífs. Það er forsenda þess að viðhalda þeim góðu lífskjörum sem við þekkjum hér á landi.

Miklir hagsmunir af utanríkisverslun

Lífskjör okkar byggja á því að hér séu framleidd verðmæti í formi vara og þjónustu sem seld eru á erlendum mörkuðum. Forsenda þessa er greiður aðgangur að helstu mörkuðum.

Með EES samningnum er Ísland aðili að innri markaði Evrópu sem er okkar mikilvægasti markaður en útflutningur til Bandaríkjanna hefur aukist undanfarin ár, sér í lagi hvað varðar vörur sem framleiddar eru af fyrirtækjum í iðnaði. Sá útflutningur hefur tvöfaldast á tveimur árum og ríflega þrefaldast á fimm árum en rekja má það til vaxtar í hugverkaiðnaði sem gæti orðið verðmætasta útflutningsstoðin við lok þessa áratugar ef allt gengur eftir. Bandaríkjamarkaður er líklega stærsti markaðurinn fyrir þann vaxandi og mikilvæga iðnað og því skiptir máli að fyrirtækin hafi greiðan aðgang að honum.

Leikreglurnar hafa breyst

Ávinningur alþjóðavæðingar hefur verið umtalsverður en á móti hefur framleiðsla færst frá Vesturlöndum sem hefur komið illa við ýmsa hópa. Kaflaskil eru í alþjóðavæðingu núna þegar tollar snarhækka í viðskiptum milli Bandaríkjanna og helstu viðskiptalanda þeirra. En fleira kemur til sem veldur þeirri þróun. Heimsfaraldur og stríðsátök hafa sýnt fram á veikleika alþjóðavæðingar. Hugmyndin um að hægt væri að nálgast hvað sem er hvenær sem er stóðst ekki þegar á reyndi. Þegar á reyndi var aðgangur að vöru og þjónustu skertur og aðfangakeðjur höktu.

Aukið spennustig í heiminum, sem birtist meðal annars í fjölþáttaógnum – netárásum, árásum á innviði og aðra þætti sem varða daglegt líf fólks – ýtir enn frekar undir þessa þróun. Geta samfélagsins til að mæta áföllum – viðnámsþróttur – fær aukið vægi en sem betur fer hefur í lengri tíma lítið þurft að hugsa um slík mál. Framleiðsla færist nær mörkuðum og samskipti við ríki sem aðhyllast svipuð gildi aukast.

Breyttar leikreglur kalla á umbætur

Íslensk stjórnvöld hafa sannarlega talað fyrir hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi undir forystu forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Vegna þess að góð lífskjör landsmanna byggjast á frjálsum alþjóðaviðskiptum er mjög mikilvægt að halda Íslandi utan við hverja þá tolla sem ríki Evrópu eða Evrópusambandið í heild kunna að leggja á innflutning þangað. Að sama skapi þarf að bæta viðskiptakjör við Bandaríkin, okkar vinaþjóð til langs tíma.

Stóra verkefnið er þó að efla samkeppnishæfni iðnaðar og atvinnulífs nú þegar ytri skilyrði fara versnandi og leikreglurnar hafa breyst. Þetta á ekki bara við hér á Íslandi heldur hafa stjórnvöld annarra ríkja talað skýrt um þetta.

Þetta snýr að því að einfalda regluverk, hætta gullhúðun og afhúða regluverkið. Gera þarf fyrirtækjum kleift að hagræða í rekstri, ekki síst til hagsbóta fyrir neytendur. Varhugavert er að auka álögur á fyrirtæki við þessar aðstæður. Flýta þarf fyrir innviðaframkvæmdum, orkuöflun og einfalda til muna uppbyggingu íbúða. Ferli framkvæmda er alltof flókið og þarf að einfalda. Brýnt er að viðhalda hvetjandi umgjörð nýsköpunar en sem fyrr segir er hugverkaiðnaður vaxandi útflutningsstoð og getur orðið sú verðmætasta við lok þessa áratugar ef rétt er á málum haldið.

Forsætisráðherra hefur boðað iðnaðarstefnu fyrir Ísland sem getur orðið stökkpallur okkar inn í næsta hagsældarskeið. Samtök iðnaðarins fagna þessu og munu ekki láta sitt eftir liggja svo slík stefna geti litið dagsins ljós. Þegar heimurinn breytist hraðar en áður þá verða stjórnvöld að bregðast hratt við. Hér reynir á aðgerðir, ekki aðeins orð.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.