Mánaðarleg væntingavísitala Gallup er reiknuð út frá niðurstöðum könnunar sem mælir viðhorf almennings til núverandi efnahagsumsvifa og væntinga til næstu mánaða.
Myndin sýnir annars vegar muninn milli þessara tveggja mælinga sem vísbendingu um hvort umsvif aukist eða minnki. Hins vegar sýnir hún mismun milli ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa með fastan meðaltíma til fimm ára og ríkisbréfa til eins árs.
Mismunurinn gefur vísbendingu um hvort markaðsaðilar vænti lækkandi eða hækkandi vaxta þegar á líður. Skyggðu svæðin tákna samdrátt hagkerfisins samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands.
Við upphaf áranna í kjölfar fjármálaáfallsins 2008 mat almenningur efnahagsumsvif framtíðarinnar mun bjartari en líðandi stundar, sem endurspeglast í miklum jákvæðum mun. Fram til ársins 2016 fór munurinn minnkandi þar til hann varð neikvæður og almenningur taldi efnahagsumsvif fara minnkandi.
Álíka þróun má lesa úr lækkandi mismun ávöxtunarkröfu ríkisbréfa til fimm ára og til eins árs þar sem fjárfestar töldu að vextir til skemmri tíma yrðu álíka háir vöxtum til lengri tíma. Þegar hagkerfið dróst saman á fyrstu mánuðum 2020 við upphaf kórónuveirufaraldursins hækkuðu bæði væntingar um efnahagsumsvif og mismunur vaxta vegna lækkunar meginvaxta Seðlabanka Íslands.
Síðan síðla árs 2021 hafa báðar stærðirnar gefið til kynna minni bjartsýni um efnahagsumsvif til framtíðar og hrakaði þeim hratt frá febrúar síðastliðnum er stríðið í Úkraínu hófst sem fylgdi miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði hrávöru.
Niðurstöður mælinga Gallup fyrir júní síðastliðinn sýna að almenningur hefur ekki haft viðlíka væntingar um versnandi efnahagsumsvif síðan í upphafi kórónuveirufaraldursins.
Mismunur ríkisbréfa hefur minnkað hratt og orðið neikvæður síðan í maí vegna áhrifa 400 punkta (pkt.) vaxtahækkana Seðlabankans á styttri enda vaxtaferilsins en meginvextir bankans eru nú 4,75%.
Ávöxtunarkrafa til fimm ára var 5,75% í lok viðskipta síðastliðinn þriðjudag við hlið eins árs kröfu upp á 6,05% sem gefur til kynna væntingar markaðsaðila um að meginvextir Seðlabankans nái hámarki á fyrri hluta árs 2023.
Fyrirliggjandi þjóðhagsspár opinberra stofnanna styðja þessa tilgátu sé leyst út fyrir framtíðarvaxtastigi í þjóðhagslíkani undirritaðs en þó virðast markaðsaðilar vænta hraðari lækkunar vaxta en spárnar gera ráð fyrir.
Líkan sem inniheldur útgefnar spár gefur til kynna tæplega 70 pkt. hærri ávöxtunarkröfu en markaðsaðilar verðleggja fimm ára ríkisbréf á eða 6,42%.
Réttlæting vaxtastigs byggir á efnahagsumsvifum hagkerfisins og verðlagi þar sem vestrænir hagstjórnaraðilar vilja hvorugt mikla verðbólgu né framleiðsluslaka. Í ljósi væntinga heimila um mikla verðbólgu á næstu 12 mánuðum til fimm ára í júníhefti Hagvísa Seðlabankans og þeirrar þróunar sem myndin hér teiknar upp má telja minni efnahagsumsvif sennilegri en verðbólgu sem sökudólg væntinga markaðsaðila um hraðari lækkun vaxta.
Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru við ritun hennar. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið ber ekki ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 7. júlí 2022