Hrafnarnir eru orðnir býsna þreyttir á útreikningum fjármálafakíra um hversu margfalt ríkisútgjöld til ýmissa atvinnugreina skila sér til baka í efnahagslegum ávinningi. Engum dettur í hug að reikna út hversu margfalt það skili sér að leyfa skattgreiðendum að halda sínum launatekjum í stað þess að greiða þær í ríkissjóð.

En stundum eru slíkar æfingar svo fjarstæðukenndar að af þeim má hafa nokkurt gaman.

Nú hefur Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur reiknað út að efnahagslegur ávinningur af íhlutun Páls Gunnars Pálssonar og hans fólks í Samkeppniseftirlitinu á árunum 2015-2024 hafi numið 11,6 til 19,1 milljarði á ári hverju.

Með öðrum orðum skilaði það landsmönnum marga milljarða í ávinning að eftirlitið blandaði sér í viðskipti með gjaldþrota majónesfabrikku og sá til þess að Múlakaffi tók að sér framleiðslu Laddasósunnar þegar fyrirtækið Gleðipinnar var keypt á sínum tíma.

Ávinningurinn nemur 655 milljónum á hvern starfsmann eftirlitsins og verður það að teljast nokkuð vel af sér vikið. Rétt er að taka fram að Katrín tekur sérstaklega fram í greiningu sinni að ávinningurinn af starfi eftirlitsins sé vanmetinn ef eitthvað er.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill bortist fyrst í blaðinu sem kom út 21. maí 2025.