Það er mikið stuð á Viðreisnarfólki um þessar mundir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sést á flettiskiltum víðs vegar um borg með áletruninni: Lækkum vexti!
Þá lét flokkurinn gera könnun fyrir sig þar sem spurt var hvort að fólk hafi fundið fyrir hærri vöxtum. Er þetta sambærilegt við að gera kannanir um hvort fólk hafi fundið fyrir veðrinu í fyrradag – algjörlega tilgangslaust og upplýsingagildið ekkert. Þrátt fyrir það hefur þessi skrýtna könnun verið þingmönnum flokksins mikill innblástur og þeir duglegir við að skrifa greinar í blöðin um uppáhaldsyrkisefni sitt: Ísland er ömurlegt út af krónunni.
Þannig skrifar Hanna Katrín Friðriksson grein í Morgunblaðið á mánudag þar sem hún bendir á þá staðreynd að íslenska krónan hafi misst 99,7% af virði sínu frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961. Það hvarflaði ekki að Hönnu að taka tillit til þeirrar lífskjarabyltingar sem hefur átt sér stað á þessum tíma og að landsframleiðslan margfaldast á þessum tíma. Þá minntist hún ekkert á þá staðreynd að raunlaun hafa beinlínis lækkað í ríkjum á borð við Ítalíu frá þeim tíma sem þau tóku upp evruna.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrir í blaðinu sem kom út 23. aprí 2024