Íslendingar eiga marga frambærilega verkalýðsleiðtoga. Hrafnarnir hafa t.d. hrifist með Ara Skúlasyni, formanni SSF, í hans óþreytandi baráttu fyrir bættum kjörum bankastarfsmanna.
Að mati hrafnanna er þó einn spennandi leikmaður sem oft gleymist í umræðunni en það er Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands, sem hefur komið inn með slíkum krafti sem málsvari knattspyrnufólks að honum hefur verið líkt við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.
Nýjasta útspil Leikmannasamtakanna hefur vakið athygli en þau leggja til að sumarhlé verði innleitt á miðju keppnistímabili meistaraflokka í knattspyrnu. Íslandsmótinu yrði þá skipt upp í vor- og hausttímabil með a.m.k. fjögurra vikna hléi um mitt mót. Samtökin vilja sem sagt breyta erfiðri söluvöru í ómögulega söluvöru með því að spila engan fótbolta þær örfáu viku á ári sem hiti slefar í tveggja stafa tölu og grasvellir hafa loks tekið við sér.
Ekki nóg með það því samtökin vilja einnig að knattspyrnufélögin virði hvíldardaginn með banni við sunnudagsæfingum, auk þess sem aðeins megi æfa tvo laugardaga í mánuði.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.